Breiðblik vann 3:0 sigur á Fram í lokaleik kvöldsins. Með sigrinum lyfti liðið sér upp í sjöunda sæti deildarinnar en Framarar eru í fallsæti.
Fyrri hálfleikurinn var markalaus þar sem Framarar fengu tvö bestu færin. Haukur Baldvinsson leikmaður Fram og fyrrum Bliki, fékk þau en í annað skiptið varði Gunnleifur og svo bjargaði Guðmundur Steinn samherji Hauks.
Síðari hálfleikur var afspyrnuslakur en á tveggja mínútna kafla skoraði Breiðablik tvisvar og gerði í raun út um leikinn.
Fyrst skoraði Árni Vilhjálmsson ansi skondið mark. Hafsteinn Briem tók aukaspyrnu fyrir Fram, rúllaði boltanum rólega til baka. Denis markvörður hélt að hann væri ekkert að taka aukaspyrnuna þannig hann var rólegur. Árni var hinsvegar vakandi og náði í boltann, lék á Denis og skoraði í autt markið.
Nokkrum sekúndum síðar var staðan orðin 2:0 eftir aukaspyrnu Guðjóns Péturs Lýðssonar. Það var svo Elfar Árni Aðalsteinsson sem tryggði sigurinn með marki á 84. mínútu eftir laglegan undirbúning Árna Vilhjámssonar.
Framarar eru í fallsæti eftir ósigurinn með 15 stig eins og Fjölnir en með lakari markamun. Blikar fóru í 18 stig og eru jafnir Keflavík og Fylki.
Nánar verður fjallað um leikinn í Morgunblaðinu á morgunn en viðbrögð manna við leiknum koma síðar í kvöld á mbl.is
Einnig verður fylgst með gangi mála í öllum leikjum kvöldsins ÍSLENSKI BOLTINN Í BEINNI hér á mbl.is