Gunnlaugur: Stórkostleg tilfinning

Gunnlaugur Jónsson þjálfari Skagamanna var í skýjunum með 1:0-sigur ÍA á Leikni í toppslag 1. deildar karla í knattspyrnu í dag. Skagamenn skoruðu sigurmark leiksins úr vítaspyrnu á 90. mínútu. Garðar Bergmann Gunnlaugsson skoraði þá eftir að brotið hafði verið á Hirti Hjartarsyni innan vítateigs Leiknis.

„Þetta er auðvitað alveg stórkostleg tilfinning. Þetta var jafn leikur og það var því yndislegt að ná þessum sigri alveg í blálokin,“ sagði Gunnlaugur við mbl.is eftir leikinn á Leiknisvellinum í Breiðholti í dag.

„Við höfum leikmenn eins og Hjört Hjartarson og Garðar Gunnlaugsson sem geta gert gæfumuninn og þeir gerðu það fyrir okkur í þessum leik,“ sagði Gunnlaugur.

Skagamenn eru nú komnir með 36 stig í 2. sæti 1. deildar þegar fjórar umferðir eru eftir, fjórum stigum á eftir Leikni sem er í toppsætinu. Skagamenn standa því vel að vígi á að komast upp í efstu deild og hafa þetta ennþá í sínum höndum.

„Við höfum þetta í okkar höndum og styrktum stöðu okkar með þessum sigri. Við þurfum bara að hugsa áfram um okkur og klára okkar dagskrá vel. En vissulega lítur þetta vel út,“ sagði Gunnlaugur Jónsson þjálfari ÍA.

Viðtalið við Gunnlaug má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert