Finnur: Ekki met sem maður vill eiga

„Maður er aldrei sáttur með að missa leik niður í jafntefli og við eigum ekki að láta þetta líðast,“ sagði Finnur Orri Margeirsson fyrirliði Breiðabliks eftir 2:2-jafnteflið við Fylki í Pepsi-deildinni í kvöld.

Breiðablik komst í 2:1 þegar tíu mínútur voru eftir en hélt forskotinu í afskaplega skamman tíma.

„Við gerðum vel í að komast tilbaka en hentum því út um gluggann á 30 sekúndum, strax eftir markið. Leikurinn í heild var ágætlega spilaður en það er ekki nóg. Það þarf aga og skynsemi til að klára þetta,“ sagði Finnur Orri, en er það farið að há Blikum hve sjaldan þeir hafa innbyrt sigra í sumar.

„Þetta á það til að vinda upp á sig en ég held að þetta sé ekkert að setjast í hausinn á mönnum. Við þurfum að gera betur í að núllstilla okkur eftir hvert atvik og hvert mark,“ sagði Finnur en Blikar eru orðnir algjörir jafntefliskóngar, með 11 jafntefli í 18 leikjum.

„Þetta er ekki met sem maður vill eiga eða bæta,“ sagði Finnur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka