Sigurður Egill í U21 árs liðið

Sigurður Egill Lárusson.
Sigurður Egill Lárusson. mbl.is/Styrmir Kári

Sigurður Egill Lárusson úr Val hefur verið kallaður inn í U21 árs landsliðshópinn í knattspyrnu sem mætir Frökkum í lokaleik sínum í undankeppni EM í Frakklandi á mánudaginn.

Hólmbert Aron Friðjónsson tekur út leikbann í leiknum á móti Frökkum og þá verður Jón Daði Böðvarsson í A-landsliðshópnum sem undirbýr sig fyrir leikinn gegn Tyrkjum í undankeppni EM. Bæði Hólmbert og Jón Daði voru öflugir í 4:0 sigrinum gegn Armenum á Fylkisvelli í fyrrakvöld.

Þá hefur Fylkismaðurinn Ásgeir Eyþórsson dregið sig út úr U21 árs landsliðshópnum vegna höfuðmeiðslanna sem hann hlaut í leiknum gegn Val á dögunum.

Íslenska liðið á ennþá möguleika á því að komast í umspil fyrir úrslitakeppnina 2015 en Frakkar hafa þegar tryggt sér efsta sæti riðilsins og þar með sæti í umspili. Fjórar þjóðir með bestan árangur í öðru sæti, riðlanna 10, komast í umspilið.  Sigur mundi fleyta íslenska liðinu langt í umspilið og jafntefli gæti dugað ef úrslit verða hagstæð annars staðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka