Kristján Gauti hélt EM vonum lifandi

Kristján Gauti Emilsson skoraði mark Íslands í kvöld.
Kristján Gauti Emilsson skoraði mark Íslands í kvöld. AFP

Íslenska 21 árs landslið karla í knattspyrnu gerði í kvöld 1:1-jafntefli við Frakka í lokaleik sínum í riðlakeppni undankeppni Evrópumótsins 2015 sem haldið verður í Tékklandi. Ísland þurfti á allavega einu stigi úr leiknum í kvöld að halda til þess að eiga áfram möguleika á því að komast í umspil fyrir EM í Tékklandi, og það tókst með 1:1-jafnteflinu.

Yaya Sanogo framherji Arsenal kom Frökkum yfir á 63. mínútu þegar hann skoraði með hnitmiðuðu skoti neðarlega í hægra hornið eftir að Íslendingum mistókst að hreinsa í teignum eftir hornspyrnu. En Kristján Gauti Emilsson jafnaði svo metin á 80. mínútu þegar hann skallaði frábæra hornspyrnu Guðmundar Þórarinssonar í netið.

Frakkar unnu riðil 10 í undankeppninni og luku keppni með 22 stig en Ísland endaði í 2. sæti með 16 stig. Liðin 10 sem vinna sína riðla komast í umspil um sjö laus sæti á EM í Tékklandi og fjögur lið með bestan árangur í 2. sæti.

Sem stendur er Ísland með þriðja besta árangur liðanna í 2. sæti, en þurfa að bíða og sjá hvernig úrslit þriggja leikja í öðrum riðlum verða.

Ítalía sem er í 2. sæti 9. riðils með 15 stig tekur á móti Kýpur annað kvöld. Ítalía er með 15 stig og líklegt að Ítalir vinni Kýpur og riðilinn um leið. Þá endar Belgía í 2. sæti með 16 stig, jafnmörg stig og Ísland. Ísland er þó með 9 mörk í plús í markatölu, en Belgar með 8 mörk í plús. Úrslitin í leik Ítalíu og Kýpur skipta samt í raun engu máli. Aðalmálið er að Serbía sem er í 3. sæti riðilsins með 13 stig og 5 mörk í plús, vinni Norður-Írland ekki stærra en 4:0.

Austurríki sem er með 15 stig í 2. sæti 4. riðils sækir topplið riðilsins, Spán heim á morgun. Líkleg úrslit eru sigur Spánar, og það yrðu góð úrslit fyrir Ísland.

Þá mætast Svíþjóð og Tyrkland sem eru í 2. og 3. sæti í riðli 7 annað kvöld. Bæði lið hafa 13 stig og með 5 og 6 mörk í plús í markatölu. 2:0-sigur annars liðsins gæti því meira segja litlu máli breytt fyrir stöðu Íslands.

Staða Íslands er því nokkuð góð, þó svo Íslendingar þurfi að bíða eftir því að lokaumferð í öllum riðlum klárist annað kvöld til að fá staðfestingu á umspilssætinu.

Frakkland U21 1:1 Ísland U21 opna loka
90. mín. Florian Thauvin (Frakkland U21) fer af velli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert