Breiðablik vann 4:1 sigur á Víkingi R. í 20. umferðar Pepsi-deildar karla í knattspyrnu á Kópavogsvelli í dag. Þeir grænklæddu léku á als oddi, með Árna Vilhjálmsson í broddi fylkingar, á meðan Víkingar náðu sér engan veginn á strik.
Árni skoraði fyrsta mark leiksins með þrumuskoti úr teignum á 9. mínútu leiksins. Hann var síðan aftur á ferðinni tíu mínútum síðar og róðurinn orðinn þungur fyrir gestina.
Ekki skánaði það þegar Henry Monaghan fékk beint rautt spjald fyrir glórulausa tæklingu á 44. mínútu.
Seinni hálfleikur fór heldur rólega af stað og það var ekki fyrr en á 78. mínútu sem leikar fóru að æsast, en þá minnkaði Ívar Örn Jónsson muninn úr vítaspyrnu.
Árni fullkomnaði þrennu sína nokkrum mínútum síðar með glæsilegu skoti og það var síðan Ellert Hreinsson sem kórónaði flottan leik sinn með góðu marki á lokaandartökum leiksins.
Þetta var sanngjarn sigur Breiðabliks á Víkingum sem eru nú aðeins tveimur stigum á undan Valsmönnum í 4. sæti deildarinnar. Breiðablik er komið með 24 stig og loks öruggt með að halda sæti sínu í deildinni. Reyndar eiga Blikar enn fræðilega möguleika á að ná fjórða sætinu af Víkingi.
Fylgst var með öllum leikjum dagsins í Pepsi-deildinni hér á mbl.is í ÍSLENSKI BOLTINN Í BEINNI.