Ágúst: Gott stig en dálítið svekktur

Ágúst Þór Gylfason.
Ágúst Þór Gylfason. mbl.is/Eggert

„Við tökum stigið með þökkum, það er kærkomið, og það var mikilvægt að halda núllinu," sagði Ágúst Þór Gylfason þjálfari Fjölnis við mbl.is eftir markalaust jafntefli gegn Stjörnunni í Grafarvogi í dag, í 20. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu.

Fjölnir er þá með 20 stig, Keflavík 19 og Fram 18 stig en nokkuð ljóst er að eitt þessara liða fylgir Þór niður í 1. deildina. Fjölnir á eftir útileik við Fylki og heimaleik við ÍBV.

„En, að sjálfsögðu, miðað við hvernig leikurinn spilaðist, þá er maður dálítið svekktur með að hafa ekki unnið því það vorum við sem fengum færin. Þórir komst reyndar aldrei í færið sjálft sem blasti við í seinni hálfleiknum en Mark hefði átt að skora úr dauðafærinu sem hann fékk í fyrri hálfleik.

Við vorum þéttir til baka og Stjörnumenn sköpuðu sér lítið af færum, þannig að við tökum það með okkur, sem og stigið sem er kærkomið í þessari botnbaráttu. Þetta er í okkar höndum en við eigum eftir tvo mjög erfiða leiki gegn Fylki og ÍBV."

Ertu sáttur við hvernig liðið hefur spilað núna á lokasprettinum í deildinni?

„Já, við höfum komið sterkir upp í síðustu leikjum. Við unnum góðan sigur á Fram og þetta var gott stig gegn Stjörnunni. Við eigum baráttuleik framundan í Lautinni gegn Fylkismönnum sem eru farnir að horfa á Evrópusæti," sagði Ágúst Þór Gylfason.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert