Gamli Þórsarinn, Guðmundur Benediktsson þjálfari Breiðabliks, var þungbúinn eftir tap Blika gegn Þór á Akureyri í dag. Tapið þýðir að Blikar eiga ekki lengur möguleika á að laumast í Evrópusæti en þetta var einungis fimmta tap Blika í deildinni í sumar.
„Það var ekki það sem við vildum að lenda undir hér í dag því Þórsarar eru virkilega góðir í að hanga á forustu og það vissum við vel. Hins vegar fengum við færi til að skora og það var óþarfi að tapa þessum leik því mér fannst við vera með yfirhöndina lengstum,“ sagði Guðmundur við mbl.is eftir leikinn.
„Mér fannst uppstillingin hjá þeim ekkert endilega óvænt, bæði vegna umræðu um liðið og spilamennsku þess í síðustu leikjum. Hún skipti heldur engu máli því við vissum að hér yrði barist að krafti sama hverjir myndu spila.
Ég kannast aðeins við mig hérna og vissi vel að þetta yrði ekkert auðveldara þótt það vantaði einhver nöfn hjá Þórsurum. Þeir voru mjög þéttir og tvíefldust eftir fyrra markið svo þetta var erfitt hjá okkur í dag,“ sagði Guðmundur að lokum.