Stjörnumenn völtuðu yfir Framara

Veigar Páll Gunnarsson og Ingiberg Ólafur Jónsson eigast við í …
Veigar Páll Gunnarsson og Ingiberg Ólafur Jónsson eigast við í leik Stjörnunnar og Fram í dag. mbl.is/Eggert

Stjarnan sigraði Fram örugglega í næstsíðustu umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu en lokatölur urðu 4:0 þar sem Stjörnumenn gerðu út um leikinn á fyrstu 27. mínútum leiksins með þremur mörkum. Það var vitað að spennustigið yrði hátt hjá báðum liðum sem berjast á sitt hvorum enda töflunnar en leikmenn Stjörnunnar virtust ráða mun betur við það en með sigrinum tryggðu þeir sér hreinan úrslitaleik í Kaplakrika gegn FH í næstu umferð.

Stjörnumenn hófu leikinn af miklum krafti og skoruðu fyrsta mark leiksins á 5. mínútu en þar var að verki Daninn Rolf Toft með skoti af stuttu færi. Þung sókn Garðbæinga fylgdi í kjölfarið þar sem þeir fengu hvert færið á fætur öðru. Toft var aftur á ferðinni á 18. mínútu og tvöfaldaði forystu heimamanna með góðu skoti fyrir utan teig.

Veigar Páll Gunnarsson Stjörnumanna skoraði þriðja mark þeirra á 27. mínútu og aftur var það skot fyrir utan teig, 3:0 og þannig var staðan í hálfleik þar sem munurinn var síst of lítill.

Framarar hófu síðari hálfleikinn betur en þann fyrri og náðu ágætis spilaköflum. Þeir komu sér í algjört dauðafæri þar sem Guðmundur Steinn Hafsteinsson slapp einn í gegn og varamarkvörður Stjörnunnar, Sveinn Sigurður Jóhannesson braut greinilega á honum. Dómari leiksins, Þóroddur Hjaltalín dæmdi hins vegar ekki neitt, mönnum til mikilllar furðu.

Rolf Toft hélt áfram stórleik sínum í fremstu víglínu fyrir Stjörnumenn og fullkomnaði þrennuna á 72. mínútu með góðu skoti með vinstri fæti, fyrir utan teig og var það síðasta mark leiksins, lokatölur 4:0.

Stjarnan mætir FH í sannkölluðum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn í Hafnarfirði. Stjörnumenn hafa 49 stig í 2. sæti en FH er í 1. sæti með 51 stig.

Staðan er orðin ansi svört hjá Frömurum. Þeir hafa 18 stig í 11. sæti og þurfa að treysta á að Fjölnismenn, sem eru í 10. sæti með 20 stig, tapi gegn ÍBV í síðasta leiknum ásamt því að vinna Fylki til þess að spila í Pepsi-deildinni að ári.

Fylgst var með gangi mála í öllum leikjum dagsins á einum stað í ÍSLENSKI BOLT­INN Í BEINNI hér á mbl.is

Stjarnan 4:0 Fram opna loka
90. mín. Ólafur Karl Finsen (Stjarnan) á skot sem er varið
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert