Lagerbäck: Eigum marga lykilmenn í dag

Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson hafa komið Íslandi upp um …
Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson hafa komið Íslandi upp um tæp 100 sæti á styrkleikalista FIFA. mbl.is/Eggert

„Ég var hæstánægður eftir leikinn við Tyrki. Við höfum núna unnið saman í tvö og hálft ár og maður sá enn framfarir í síðasta leik. Virðing mín fyrir leikmönnunum verður bara meiri og meiri. Það er virkilega gaman að vera landsliðsþjálfari Íslands,“ sagði Lars Lagerbäck við mbl.is í höfuðstöðvum KSÍ í dag.

Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson, þjálfarar A-landsliðs karla í knattspyrnu, tilkynntu í dag hvaða leikmenn myndu mæta Lettlandi og Hollandi í undankeppni EM 10. og 13. október. Eftir 3:0-sigur á Tyrkjum, þar sem Ísland átti sinn besta leik til þessa undir stjórn þjálfaranna tveggja, var ljóst að ekki yrðu miklar breytingar gerðar á leikmannahópnum. Í raun var aðeins ein breyting gerð, en Alfreð Finnbogason kom inn aftur eftir meiðsli í stað Hauks Heiðars Haukssonar.

„Það var vissulega frekar auðvelt að velja þennan hóp,“ sagði Lagerbäck eftir fréttamannafundinn í dag. Þeir Heimir lögðu mikla áherslu á það að nú færi öll orka í það að hugsa um næsta leik við Lettland, sem fram fer ytra, og aðeins að honum loknum yrði tímabært að hugsa um leikinn við Holland sem fram fer á Laugardalsvelli þremur dögum síðar.

Mjög vonsvikinn ef við ynnum ekki Letta

„Ég yrði mjög vonsvikinn ef við næðum ekki í þrjú stig til Lettlands því að ég tel okkur hafa hæfileikana sem til þarf. Ef að við búum okkur rétt undir leikinn og eigum góðan leik þá ættum við að vinna,“ sagði Lagerbäck, en lettneska liðið er þaulskipulagt og erfitt að brjóta á bak aftur.

„Þeir hafa spilað frekar varnarlega í þeim leikjum sem við höfum skoðað en ég held að þeir sækji kannski aðeins meira á heimavelli. En við höfum leikmenn til að stjórna leiknum nokkuð vel. Í leiknum gegn Tyrkjum gátum við bæði haldið boltanum mjög vel og einnig sótt hratt. Við vitum núna hvað við getum, og eigum að geta ráðið við að vera sterkari aðilinn. Mikilvægast er þó að við vanmetum ekki nokkurt lið. Helsta áhættan felst í andlega þættinum, en ekki því hvernig við spilum,“ sagði Lagerbäck, minnugur þess hvernig fór í undankeppni HM fyrir tveimur árum þegar Ísland tapaði gegn Kýpur í næsta leik eftir frækinn sigur á Noregi.

Svíinn fullyrðir að þrátt fyrir marga góða leiki á síðustu misserum hafi frammistaðan gegn Tyrkjum verið sú besta síðan hann var ráðinn landsliðsþjálfari.

Spiluðu allir ævintýralega vel

„Í leiknum gegn Tyrkjum spiluðu allir vel, í raun alveg ævintýralega vel. Það er það mikilvægasta, að allir skili sínu. En svo eigum við auðvitað menn eins og Gylfa sem er stórkostlegur leikmaður, og Kolbeinn stendur sig frábærlega bæði í því að skora og að skila mikilli vinnu fyrir liðið. Svo höfum við munstrað tvo miðjumenn sem bakverði og þeir taka mjög virkan þátt í sóknarleiknum. Í dag eigum við marga lykilmenn og staðan er góð. En það er eitt að ná góðum leik, núna þurfum við tvo þannig til viðbótar,“ sagði Lagerbäck.

Ísland skoraði langþráð mark úr föstu leikatriði í leiknum gegn Tyrkjum og margar hornspyrnur liðsins sköpuðu mikla hættu.

Kári mikilvægur í föstum leikatriðum

„Við notuðum mikinn tíma í föst leikatriði fyrir síðasta leik þar sem að við höfðum meiri tíma en oftast áður. Þegar við fáum horn og aukaspyrnur er Kári [Árnason] mikilvægur eins og sást í fyrsta markinu gegn Tyrkjum. Kári átti stóran þátt í því, með því að koma að markverðinum og trufla hann án þess að brjóta af sér. Það er gaman að sjá æfingarnar skila sér,“ sagði Lagerbäck.

Alfreð er nú kominn í hópinn á nýjan leik eftir meiðsli en markakóngur hollensku úrvalsdeildarinnar gengur ekki svo glatt inn í byrjunarliðið eftir frammistöðu Jóns Daða Böðvarssonar gegn Tyrkjum.

Spenntur fyrir leikmönnum í U21-liðinu

„Það er auðvitað hægt að segja að það sé erfitt að velja liðið þegar margir góðir leikmenn koma til greina en það er bara gott. Við vitum ekki alveg stöðuna á Alfreð, hann kom inná sem varamaður í korter í síðasta leik, en hann er toppframherji. Jón Daði, Viðar, Kolbeinn... þetta eru allt ólíkir framherjar. Maður þarf því að horfa á hver andstæðingurinn er, hvort hann heitir til dæmis Lettland eða Holland. Þessi staða er bara mjög góð,“ sagði Lagerbäck.

Á blaðamannafundinum í dag var U21-landslið Íslands einnig kynnt en það mætir Dönum í umspili um sæti í lokakeppni EM 10. og 14. október. Jón Daði er gjaldgengur í það lið en var valinn í A-landsliðið, og fleiri leikmenn úr U21-hópnum banka fast á dyrnar hjá A-landsliðinu.

„Það að U21-liðið skuli aftur eiga möguleika á að komast í lokakeppni EM undirstrikar hvað íslenskur fótbolti er í frábærum málum. Í þeim hópi eru mjög athyglisverðir leikmenn. Við erum með mjög góðan A-landsliðshóp í dag þannig að ég veit ekki hvernig þetta verður þegar strákarnir í U21-liðinu verða orðnir aðeins eldri. Þetta lítur virkilega vel út,“ sagði Lagerbäck.

Kolbeinn Sigþórsson, Aron Einar Gunnarsson, Rúrik Gíslason og Theódór Elmar …
Kolbeinn Sigþórsson, Aron Einar Gunnarsson, Rúrik Gíslason og Theódór Elmar Bjarnason fagna marki Kolbeins gegn Tyrkjum. mbl.is/Golli
Jón Daði Böðvarsson átti frábæra frumraun í sínum fyrsta mótsleik, …
Jón Daði Böðvarsson átti frábæra frumraun í sínum fyrsta mótsleik, gegn Tyrkjum. mbl.is/Golli
Lagerbäck segir marga mjög forvitnilega leikmenn í U21-landsliðinu sem er …
Lagerbäck segir marga mjög forvitnilega leikmenn í U21-landsliðinu sem er í baráttu um að komast í lokakeppni EM. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert