Guðmundur: Best að tjá sig ekki um framtíðina

„Við lögðum upp með að ljúka mótinu með stæl. Mönnum á eftir að líða betur í hjartanu með þannig endalok á keppnistímabilinu," sagði Guðmundur Benediktsson, þjálfari Breiðabliks, eftir 3:0 sigur á Val í lokaumferð Pepsi-deildarinnar í knattspyrnu.

Guðmundur sagði hinsvegar að útkoma leiktímabilsins væri ekki viðunandi fyrir félag eins og Breiðablik sem eigi að berjast í toppbaráttu og of mörg jafntefli hafi komið í veg fyrir að liðið hafi blandað sér í toppbaráttuna á endasprettinum. „Hér þarf að byggja ofan á og kreista meira út úr leikmönnum og kannski að fá aðra leikmenn inn í hópinn. Blikar eru stærsta knattspyrnufélag landsliðsins, miðað við iðkendafjölda og á að vera í baráttu um titilinn á hverju ári."

„Ég hef ekki hugmynd um hvað framtíðin ber í skauti sér hér og get eiginlega ekki tjáð mig um það á þessari stundu. En ég vona að framtíðin skýrist fljótlega," sagði Guðmundur spurður um framtíð sína sem þjálfari Breiðabliks. Spurður hvort hann langaði til þess að vera áfram þjálfari Breiðabliks svaraði Guðmundur: „Það er best að ég tjái mig ekkert um það."

Nánar er rætt við Guðmund á meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka