Hinn umtalaði falldraugur lét sjá sig í Safamýri í dag þegar Fram féll úr efstu deild karlaí knattspyrnu. Fram sigraði Fylki 4:3 í lokaumferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi-deildarinnar, á Laugardalsvellinum en það dugði ekki til að bjarga málunum því Fjölnir vann sinn leik örugglega. Fram hafnaði því í næstneðsta sæti deildarinnar og Fylkismenn misstu af tækifæri til að stela Evrópusætinu í lokaumferðinni því Víkingur og Valur töpuðu einnig sínum leikjum. Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.
Fram varð að vinna leikinn til að eiga möguleika því liðið var og er tveimur stigum á eftir Fjölni en Þórsarar höfnuðu í neðsta sæti. Sigur hefði nægt Fylki til að ná Evrópusætinu og þeim Evrum sem því fylgir. Árbæingar hljóta að vera svekktir eins og Framarar því Fylkir var yfir 3:2 í síðari hálfleik og manni fleiri eftir að Ósvald Jarl Traustason fékk rautt spjald. Fyrirliði Fram, Guðmundur Steinn Hafsteinsson, gerði þær vonir að engu því hann skoraði síðustu tvö mörk leiksins.
Fylkir komst þrívegis yfir í leiknum en missti ávallt niður forskotið. Markahrókurinn Albert Ingason skoraði fyrsta markið á 21. mínútu en Aron Bjarnason jafnaði með laglegu marki tíu mínútum síðar en hann átti skínandi leik. Andrew Sousa lék einnig afar vel hjá Fylki og hann kom sínum mönnum í 2:1 á 38. mínútu en Arnþór Ari Atlason jafnaði fyrir hlé. Ásgeir Örn Arnþórsson skoraði snemma í síðari hálfleik fyrir Fylki og á 57. mínútu fékk Ósvald rauða spjaldið. Þá tók leikurinn óvænta stefnu og Guðmundur jafnaði 3:3 á 63. mínútu. Annað mark hans og það síðasta í leiknum kom á 81. mínútu og einhvern veginn tókst Frömurum að kreista fram sigur í þessum fjöruga leik.
Niðurstaðan því 4:3 en leikmenn beggja liða súrir að leiknum loknum. Fram leikur í 1. deild að ári og Fylkir verður ekki á meðal þeirra liða sem taka þátt í Evrópukeppni en það var orðinn raunhæfur möguleiki þegar á leið leikina í dag. Á hinn bóginn má benda á að Fylkismenn geta vel við lokastöðuna unað miðað við stöðu þeirra um verslunarmannahelgina þegar liðið var í bullandi fallhættu.
Einnig má fylgjast með öllu sem gerist í öllum leikjunum og fá alls konar fréttir sem tengjast viðburðum dagsins í beinu lýsingunni ÍSLENSKI BOLTINN Í BEINNI.