Stjarnan Íslandsmeistari í fyrsta sinn

Stjarnan varð í dag Íslandsmeistari karla í knattspyrnu í fyrsta sinn eftir ótrúlegan 2:1-útisigur á FH á Kaplakrikavelli í Hafnarfirði í dag. Stjarnan endaði með 52 stig í 1. sæti Pepsi-deildarinnar en FH í 2. sæti með 51 stig.

Spennustigið var hátt og ekki minnkaði það í öllum látunum í dag á troðfullum Kaplakrikavelli. Ólafur Karl Finsen kom Stjörnunni yfir með marki á 40. mínútu þegar hann skoraði af stuttu færi. FH-ingar vildu þó meina að Ólafur hefði verið rangstæður og sjónvarpsupptökur virðast styðja það.

Ekki minnkaði dramatíkin þegar Veigar Páll Gunnarsson fyrirliði Stjörnunnar fékk beint rautt spjald fyrir að slá Hólmar Örn Rúnarsson á 59. mínútu. Aðeins fimm mínútum síðar jafnaði Steven Lennon fyrir FH með frábæru marki þegar hann snéri af sér vörn Stjörnunnar og afgreiddi boltann snyrtilega í markið.

Það var allt útlit fyrir að FH yrði Íslandsmeistari, en í uppbótartíma venjulegs leiktíma braut Kassim Doumbia á Ólafi Karli Finsen í vítateig FH og Kristinn Jakobsson dómari, sem í dag dæmdi sinn síðast leik á Íslandsmótinu í knattspyrnu, dæmdi umsvifalaust vítaspyrnu.

Ólafur Karl fór sjálfur á vítapunktinn og skoraði af öryggi og kom Stjörnunni í 2:1 og tryggði Stjörnunni Íslandsmeistaratitilinn.

Fylgjast mátti með öllu sem gerðist í öllum leikjunum og fá alls konar fréttir sem tengjast viðburðum dagsins í beinu lýsingunni ÍSLENSKI BOLTINN Í BEINNI.

FH 1:2 Stjarnan opna loka
90. mín. Stjarnan fær hornspyrnu
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert