Kolbeinn: Hindrar mig ekki í að spila

Kolbeinn Sigþórsson æfði ekki með íslenska landsliðinu í dag vegna smámeiðsla en hann segist verða klár í slaginn þegar flautað verður til leiks í viðureigninni gegn Lettum á Skonto Stadium á föstudagskvöldið.

„Það er svipuð staða á mér og fyrir Tyrkjaleikinn. Ég er með pínu vökva í hnénu og hef fundið fyrir því í vikunni. Það er samt aldrei að fara að stoppa mig í því að spila. Ég fékk smá hvíld í dag en verð orðinn góður á morgun,“ sagði Kolbeinn við mbl.is á æfingu íslenska landsliðsins á Skonto Stadium í kvöld að lettneskum tíma en hægt er að skoða allt viðtalið í spilaranum hér að ofan.

Kolbeinn innsiglaði glæsilegan sigur gegn Tyrkjum í síðasta mánuði þegar hann skoraði þriðja markið í 3:0 sigri og hann hefur þar með skorað 16 mörk í 24 landsleikjum sem er magnaður árangur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert