Má alltaf gera betur

Atli Guðnason.
Atli Guðnason. mbl.is/Ómar

FH-ingurinn Atli Guðnason var besti leikmaður Pepsi-deildar karla í knattspyrnu árið 2014 að mati Morgunblaðsins en Atli fékk flest M í einkunnargjöf Morgunblaðsins. Þetta er í þriðja sinn sem Atli er útnefndur besti leikmaður deildarinnar hjá Morgunblaðinu en hann hlaut þennan titil árið 2009 og 2012.

„Það er gaman að fá viðurkenningar en ég átti ekki von á þessu þar sem ég var varamaður í nokkrum leikjum í sumar. Heilt yfir var ég nokkuð ánægður með eigin frammistöðu en það má samt alltaf gera betur. Ég byrjaði tímabilið ekkert sérstaklega vel en mér gekk vel síðari hluta mótsins. Ég hefði svo sannarlega viljað setja eitt mark í lokaleiknum og verða Íslandsmeistari og þá hefði tímabilið verið fullkomið,“ sagði Atli við Morgunblaðið en hann skoraði 10 mörk í 22 leikjum FH-inga í deildinni í sumar.

Atli segist enn vera að ná áttum og jafna sig eftir vonbrigðin í úrslitaleiknum á móti Stjörnunni þar sem Stjarnan fagnaði 2:1 sigri í Kaplakrika og varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn.

„Ég held að við höfum jafnað stigametið hjá FH og að ná ekki að vinna titilinn með því að fá 51 stig er eiginlega sorglegt. Það var annað lið sem gerði aðeins betur og Stjarnan hlýtur því að eiga Íslandsmeistaratitilinn skilinn. Þetta var svona næstum því tímabil hjá okkur og þegar maður skilur við það þá verður það að teljast vonbrigði fyrir okkur. Við duttum út úr bikarnum í 32-liða úrslitunum, áttum mikla möguleika á að komast í lengra í Evrópudeildinni en hentum því frá okkur með tapinu á móti Elfsborg og töpum svo á heimavelli fyrir Stjörnunni í úrslitaleiknum um Íslandsmeistaratitilinn. Þegar kom að stærstu leikjunum þá klikkuðum við og við erum hundsvekktir að ná ekki stórum titli í hús annað árið í röð,“ sagði Atli.

Ýtarlegt viðtal er við Atla í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun og þar er einnig að finna úrvalslið ársins, lokaniðurstöðuna í einkunnagjöfinni og fleira fróðlegt um deildina í ár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert