Kári Árnason átti stórgóðan leik í hjarta íslensku varnarinnar í 2:0-sigri liðsins á Hollandi í undankeppni EM í kvöld. Hollensku stjörnurnar sköpuðu sér engin teljandi færi í leiknum og Kári var skiljanlega ánægður með frammistöðuna.
„Þetta er lyginni líkast. Þetta var liðsheildarsigur og þeir sköpuðu sér bara tvö færi. Við lögðum leikinn taktískt rétt upp, pressuðum þá þegar við gátum en vorum sterkir til baka og þeir sköpuðu sér fáa sénsa,“ sagði Kári, en staðan var 2:0 þegar flautað var til hálfleiks þar sem þjálfararnir lögðu áherslu á að halda sama skipulagi.
„Þeir sögðu okkur að róa okkur niður og halda áfram að spila eins og í fyrri hálfleik. Við héldum varnarlínunni í réttri hæð fannst mér miðað við hvernig leikurinn spilaðist. Við vissum að þetta væri hægt og við vitum hversu gott liðið er,“ sagði Kári, en nánar er rætt við hann í meðfylgjandi myndskeiði.