Knattspyrnumennirnir Guðlaugur Victor Pálsson og Arnór Smárason segja að með ráðningu Lars Lagerbäck sem landsliðsþjálfara Íslands hafi allt breyst. Áður hafi menn litið á það sem frí að hittast fyrir landsleiki, tækifæri til að hitta fjölskylduna og kíkja á krána.
Guðlaugur Victor og Arnór Smárason, sem eru liðsfélagar hjá Helsingborg og hafa verið viðloðandi landsliðið í stjórnartíð Lagerbäcks, eru í viðtali við Helsingborgs Dagblad í dag spurðir út í ævintýralegt gengi þess síðan Lagerbäck tók við fyrir síðustu undankeppni HM.
„Ég held að þetta hafi byrjað fyrir tíu árum síðan þegar við fengum fystu fótboltahallirnar með gervigrasi. Áður fyrr var bara verið að spila fjórir gegn fjórum í innanhússsölum, á okkar löngu vetrum,“ sagði Arnór. Guðlaugur Victor segir að koma Lagerbäck í október 2011 hafi hins vegar gert útslagið.
„Skítt með það, við kíkjum bara á krána“
„Það breyttist eiginlega allt með Lars Lagerbäck. Þá varð allt fagmannlegra. Ég er frekar nýr í landsliðinu en félagarnir hafa sagt manni hvernig þetta var áður en Lars kom,“ sagði Victor.
„Menn litu bara á landsliðsverkefni sem frí. Þetta snerist bara um að hitta fjölskylduna og kíkja á krána með strákunum. Það smitar út frá sér í leikjum. Ef að menn fengu á sig mark hugsuðu þeir bara með sér „skítt með það, við kíkjum á krána á eftir“,“ sagði Victor. Arnór tekur undir þetta og á þeim félögum er að heyra að illa hafi verið haldið um stjórnartaumana hjá fyrri landsliðsþjálfurum.
Ekkert talað um taktík á æfingum
„Áður fyrr var þetta bara þægilegur hittingur. Það var ekkert skipulag varðandi það hvernig við myndum spila. Allar þrjár æfingarnar fyrir leik gátu farið í að spila ungir gegn gömlum án þess að nokkuð væri talað um taktík,“ sagði Arnór.
„Núna sýna leikmennirnir þjálfaranum virðingu. Hjá Lagerbäck þýðir ekkert kjaftæði,“ bætti Victor við. Þeir Arnór segja Heimi Hallgrímsson, sem nú stýrir landsliðinu til jafns við Lagerbäck, einnig mikilvægan.
„Hjá Heimi er alltaf stutt í grínið en Lars er sá alvarlegi. Hann er þarna til að sinna sínu og halda utan um skipulagið. Það er allt á kristaltæru hjá honum. Við spilum 4-4-2 og allir þekkja sína rullu,“ sagði Arnór.