Íslenska landsliðið í knattspyrnu tapaði fyrir Belgíu, 3:1, þegar liðin mættust í vináttulandsleik á King Bauduoin Stadion vellinum í Brussel í kvöld.
Fyrri hálfleikur var bráðfjörugur. Viðar Örn Kjartansson gerði sig líklegan snemma leiks en það voru hins vegar heimamenn sem skoruðu fyrsta markið. Þar var að verki miðvörðurinn Nicolas Lombaerts með skalla eftir aukaspyrnu rétt utan teigs.
Einungis tveimur mínútum síðar jafnaði íslenska liðið metin. Jóhann Berg Guðmundsson tók hornspyrnu, Ragnar Sigurðsson fleytti boltanum áfram á fjærstöngina þar sem Alfreð Finnbogason var einn á auðu sjó og skoraði. 1:1 eftir þrettán mínútna leik.
Bæði lið fengu sín færi það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og markverðir liðanna þurftu að vera vel á verði. Ögmundur Kristinsson sem var að leika sinn annan A-landsleik var frábær í marki Íslands og bjargaði í þrígang frábærlega. 1:1 í hálfleik.
Ingvar Jónsson kom í markið í seinni hálfleik auk þess sem fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson fór af velli fyrir Birki Bjarnason. Síðari hálfleikur byrjaði rólega og bæði lið fengu sín færi. Ingvar varði í tvígang vel en kom engum vörnum við á 62. mínútu þegar Divock Origi skoraði með föstu skoti utan teigs.
Jafnræði var með liðunum eftir markið, en rúmum stundarfjórðungi fyrir leikslok skoraði Romelu Lukaku þriðja mark Belga eftir að vörn íslenska liðsins opnaðist illa.
Íslenska liðið lagði þó ekki árar í bát, reyndi áfram að sækja og Alfreð átti meðal annars skot í stöng beint úr aukaspyrnu þegar fimm mínútur voru eftir. Lengra komust liðin ekki, lokatölur 3:1 fyrir Belgum.
Fylgst var með gangi mála í beinni lýsingu hér á mbl.is en nánar verður fjallað um leikinn í Morgunblaðinu á morgun.