Grátlegt sjálfsmark felldi íslenska liðið

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu tapaði sínum fyrsta leik í undankeppni Evrópumótsins, en Tékkar höfðu betur í leik liðanna í Plzen í kvöld, 2:1. Íslenska liðið komst yfir snemma leiks en úrslitin réðust á klaufalegu sjálfsmarki.

Fyrri hálfleikur var ekki nema níu mínútna gamall þegar Ragnar Sigurðsson kom íslenska liðinu yfir. Fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson tók þá langt innkast inn á teiginn, Petr Cech fór í skógarferð úr markinu en boltinn virtist ætla að fara framhjá. Birkir Bjarnason náði hins vegar að skalla boltann aftur fyrir sig og inn í teiginn þar sem Ragnar skallaði í netið. Draumabyrjun.

Róðurinn var hins vegar þungur eftir markið og allan fyrri hálfleikinn. Markið virtist stressa íslenska liðið upp sem náði ekki upp neinu spili í sinn leik og Tékkar stjórnuðu leiknum algjörlega. Þeir fengu nokkur ágæt færi en þegar íslenska liðið virtist ætla að halda út fram að leikhléi brast stíflan.

Tomas Rosický tók þá aukaspyrnu af miðjum vellinum, sending hans beint á fjærstöngina þar sem Daniel Pudil kom boltanum inn á teiginn þar sem varnarmaðurinn Pavel Kaderabek skallaði í netið. Það reyndist síðasta snerting fyrri hálfleiks, 1:1 að honum loknum.

Síðari hálfleikur byrjaði líkt og sá fyrri þar sem heimamenn voru mun betri en kæruleysislegur varnarleikur íslenska liðsins var stressandi á að horfa. Um miðjan hálfleikinn bar sókn Tékka ávöxt, en fengu góða hjálp við það.

Jaroslav Plasil var kominn upp að endamörkum vinstra megin og reyndi fyrirgjöf fyrir markið sem fór af Jóni Daða Böðvarssyni, þaðan í Hannes Þór Halldórsson í markinu og í netið. Meira svekkjandi getur það ekki orðið.

Nýr hægri vængur kom inn hjá íslenska liðinu í kjölfarið og liðið fór framar á völlinn. Strákarnir reyndu hvað þeir gátu að jafna leikinn en Tékkar gerðu fá mistök og héldu út. Lokatölur 2:1. Tékkar tóku því efsta sæti riðilsins af Íslendingum og hafa fullt hús stiga eða tólf talsins eftir fjóra leiki. Ísland er í öðru sætinu með níu stig, þremur stigum á undan Hollandi sem er í því þriðja.

Fylgst  var með gangi mála í beinni lýsingu hér á mbl.is sem sjá má hér að neðan, en nánar verður fjallað um leikinn í Morgunblaðinu á morgun og hér á vefnum í allt kvöld.

Tékkland 2:1 Ísland opna loka
90. mín. Kolbeinn lá óvígur eftir innan teigs eftir háa fyrirgjöf, en ekkert dæmt. Það verða að minnsta kosti þrjár mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert