Elín Metta samdi við Val til 2017

Elín Metta Jensen á ferðinni í landsleik við Möltu í …
Elín Metta Jensen á ferðinni í landsleik við Möltu í júní. mbl.is/Ómar

Elín Metta Jensen, helsti markahrókur knattspyrnuliðs Vals undanfarin ár, hefur skrifað undir nýjan samning til þriggja ára við félagið.

„Ég er ótrúlega sátt með að halda áfram hjá Val og hlakka til komandi tíma. Það eru spennandi hlutir að fara að gerast hjá félaginu,“ sagði Elín Metta í samtali við heimasíðu Vals. Viðtalið í heild má sjá hér að neðan.

Óhætt er að segja að um mikil gleðitíðindi sé að ræða fyrir Val en Elín Metta, sem er aðeins 19 ára gömul, hefur verið viðloðandi A-landsliðið undanfarin misseri og skorað 50 mörk í 72 leikjum í Pepsi-deildinni.

Elín Metta á að baki 11 A-landsleiki og hefur skorað í þeim tvö mörk. Þá á hún að baki 34 leiki fyrir yngri landslið Íslands og hefur skorað í þeim 27 mörk.

Valur hafnaði í 7. sæti Pepsi-deildarinnar á síðustu leiktíð en það er versti árangur þessa sigursæla liðs frá upphafi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert