„Ég held að ég geti alveg verið komin í toppstand fyrir tímabilið í sumar,“ sagði Mist Edvardsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, við Morgunblaðið í gær. Í júní á síðasta ári greindist hún með eitilfrumukrabbamein í hálsi og við tók stíf lyfjameðferð sem lauk í desember og skilaði tilætluðum árangri, en Mist verður að sjálfsögðu áfram undir stífu eftirliti næstu mánuði.
Þrátt fyrir lyfjameðferðina spilaði Mist fótbolta með Val nánast til loka tímabilsins síðasta haust og er staðráðin í að stimpla sig aftur inn í landsliðið áður en ný undankeppni EM hefst í haust. Fyrsta skrefið í átt að því að komast aftur í sitt besta form var tekið með hlaupaæfingu á dögunum sem gekk vel, og von bráðar getur Mist tekið fullan þátt í fótboltaæfingum að nýju. Hún greindi frá gleðitíðindunum á Facebook og skrifaði „Mist 1 - Krabbamein 0“.
„Ég má ekki fara í fótbolta strax því ég fékk blóðtappa í öxlina og má ekki fara í átök á meðan ég er á blóðþynningarlyfjum. En ég var í fyrsta eftirliti í vikunni, sem kom rosalega vel út og sýndi að blóðtappinn er að hverfa. Ég þarf að vera 3-4 vikur í viðbót á lyfjunum og get þá byrjað að æfa að vild,“ sagði Mist í gær.
Sjá allt viðtalið við Mist í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag