Ásgerður á láni til Kristianstad

Ásgerður Stefanía Baldursdóttir
Ásgerður Stefanía Baldursdóttir Ómar Óskarsson

Ásgerður Stefanía Baldursdóttir fyrirliði Íslands- og bikarmeistara Stjörnunnar í knattspyrnu gerði í dag þriggja mánaða lánssamning við sænska úrvalsdeildarliðsins Kristianstad sem þýðir að hún mun vera klár í fyrsta leik með Stjörnunni í vor.

„Ég er ekki að yfirgefa Stjörnuna, ég er að öllum líkindum að fara á lán fram að tímabili [hérlendis] og svo verður staðan bara tekin aftur. Ég mun líklega koma til baka þann 15. maí áður en glugginn lokar og svo er bara óljóst hvort ég fari aftur út,“ sagði Ásgerður Stefanía í samtali við mbl.is í dag.

„Ég spila með Stjörnunni fyrsta leik á móti KR,“ sagði Ásgerður.

Tímabilinu í Svíþjóð lýkur ekki fyrr en í október en hins vegar er gert hlé á deildinni þann 20. maí vegna heimsmeistaramótsins sem varir fram yfir miðjan júlí. Þá gæti Ásgerður farið aftur út en það er enn sem komið er algjörlega óljóst.

„Það fer bara eftir því hvort ég fái áframhaldandi samning, hvernig mér líður þarna úti, og hvernig Stjarnan tekur í það,“ sagði Ásgerður.

Ásgerður er í landsliðshópi Íslands fyrir Algarve-bikarinn sem hefst í byrjun næsta mánaðar. Hjá Kristianstad hittir hún fyrir þær Margréti Láru og Elísu Viðarsdætur og Guðný Björk Óðinsdóttur en þær eru allar í landsliðshópnum. Hjá Kristinastad leikur einnig Sif Atladóttir sem er í barneignafríi en Elísabet Gunnarsdóttir þjálfar liðið.

Ásgerður á að baki 169 leiki fyrir Stjörnuna í efstu deild og hefur skorað í þeim 20 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert