Eftir tíu daga hefst seinni hluti undankeppni Evrópumóts karla í fótbolta eftir ríflega fjögurra mánaða hlé. Reyndar má segja að þá ljúki fyrri hlutanum því fimmta umferðin af tíu er leikin laugardaginn 28. mars. Þá verður íslenska landsliðið í sinni lengstu keppnisför í undankeppni stórmóts í sögunni og sækir Kasakstan heim í fyrsta skipti.
Þá spilar Ísland jafnframt í fyrsta skipti innanhúss á þessum vettvangi en þjóðarleikvangurinn í Astana, höfuðborg Kasakstan, er yfirbyggður – nýlegt og glæsilegt mannvirki sem lokað er með færanlegu þaki þegar veðurskilyrði myndu annars gera ókleift að spila fótbolta á þessum slóðum. Eins og þau eru vanalega á þessum árstíma lengst inni í miðri Asíu.
Ljóst er að Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson verða með mjög svipað lið og í þeim fjórum leikjum sem búnir eru í undankeppninni. Og leikaðferðin er klár, þeir stilla alltaf upp í 4-4-2. Helsta breytingin er sú að Eiður Smári Guðjohnsen bætist örugglega í hópinn. Hann er reyndar ekki búinn að fá vegabréfsáritun til Kasakstan eins og fullyrt var fyrr í vikunni en það er tæknilegt smáatriði sem verður leyst.
Ólíklegt er að Theódór Elmar Bjarnason spili í Astana en hann meiddist í hné um síðustu helgi. Elmar hefur spilað sem hægri bakvörður í öllum fjórum leikjum Íslands í keppninni til þessa. Helgi Valur Daníelsson og Sölvi Geir Ottesen voru líka fjarverandi um síðustu helgi vegna meiðsla en hvorugur hefur komið við sögu í keppninni og þeir hafa setið á bekknum allan tímann í leikjunum fjórum. Þá er Ögmundur Kristinsson, sem var varamarkvörður í Tékklandi, frá vegna meiðsla í augnablikinu.