Knattspyrnumaðurinn Arnar Sveinn Geirsson hefur komist að samkomulagi um að leika með Víkingi Ólafsvík í 1. deild karla í sumar. Þetta staðfestir hann í samtali við mbl.is.
„Ég þekki klúbbinn og þá sem standa í kringum hann og það er allt mikið gæðafólk,“ sagði Arnar Sveinn við mbl.is. „Hópurinn er spennandi og þar eru nokkrir góðir félagar, og svo er auðvitað Ejub frábær þjálfari. Ég er virkilega glaður að vera kominn aftur vestur.“
Arnar Sveinn lék 7 leiki með uppeldisfélagi sínu Val í fyrra áður en hann hélt út til Bandaríkjanna í nám. Hann var í liðinu sem kom Víkingi Ólafsvík upp í efstu deild í fyrsta skipti árið 2012 en þá lék hann 20 leiki og skoraði tvö mörk.