Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu, hefur tilkynnt hópinn sem mætir Hollendingum í vináttulandsleik, laugardaginn 4. apríl næstkomandi. Leikið verður í Kórnum og hefst leikurinn kl. 14:00.
Enginn nýliði er í hópnum að þessu sinni en Margrét Lára Viðarsdóttir og Hólmfríður Magnúsdóttir eru leikjahæstu leikmenn hópsins en þær hafa báðar leikið 97 landsleiki.
Hópurinn er ekki jafn stór og fyrir Algarve-bikarinn sem kláraðist fyrr þessum mánuði og því detta nokkrar úr liðinu. Það eru Sonný Lára Þráinsdóttir markvörður Breiðabliks, Elísa Viðarsdóttir, Kristianstad, Lára Kristin Pedersen, Stjörnunni, Katrín Ómarsdóttir, Liverpool, Guðmunda Brynja Óladóttir, Selfossi og Elín Metta Jensen, Val.
Síðast léku Ísland og Holland í úrslitakeppni EM í Svíþjóð árið 2013 og þá hafði Ísland betur, 1:0 með marki Dagnýjar Brynjarsdóttur. Sá sigur tryggði Íslandi sæti í átta liða úrslitum keppninnar en Holland sat eftir. Þjóðirnar hafa einu sinni áður mæst í Kórnum, árið 2009 í vináttulandsleik en þeim leik lyktaði með 1:1 jafntefli.
Holland undirbýr sig nú af kappi fyrir úrslitakeppni HM í Kanada sem hefst 6. júní en þar leikur liðið í riðli með Kína, Nýja Sjálandi og heimastúlkum. Holland mun svo verða gestgjafi úrslitakeppni EM 2017 en dregið verður í riðla undankeppninnar þann 13. apríl næstkomandi og verður Ísland þar í efsta styrkleikaflokki. Holland situr nú í 11. sæti á styrkleikalista FIFA kvenna, fór upp um fjögur sæti á milli lista, en nýr listi verður birtur 27. mars.
Landsliðshópurinn gegn Hollandi:
Markverðir:
Guðbjörg Gunnarsdóttir, Lilleström
Sandra Sigurðardóttir, Stjörnunni
Varnarmenn:
Anna Björk Kristjánsdóttir, Stjörnunni
Anna María Baldursdóttir, Stjörnunni
Arna Sif Ásgrímsdóttir, Kopparberg/Göteborg
Glódís Perla Viggósdóttir, Eskilstuna
Miðjumenn:
Ásgerður S. Baldursdóttir, Stjörnunni
Dagný Brynjarsdóttir, Bayern München
Guðný Björk Óðinsdóttir, Kristanstad
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Stabæk
Hallbera Guðný Gísladóttir, Breiðabliki
Hólmfríður Magnúsdóttir, Avaldsnes
Rakel Hönnudóttir, Breiðabliki
Sara Björk Gunnarsdóttir, Rosengård
Sóknarmenn:
Fanndís Friðriksdóttir, Breiðabliki
Guðmunda Brynja Óladóttir, Selfossi
Harpa Þorsteinsdóttir, Stjörnunni
Margrét Lára Viðarsdóttir, Kristanstad