Eistar og Íslendingar gerðu 1:1 jafntefli í vináttuleik þjóðanna í knattspyrnu karla sem fram fór í Tallinn í Eistlandi í kvöld.
Þetta verða að teljast sanngjörn úrslit en slakur dómari leiksins hefði þó hæglega getað dæmt tvær vítaspyrnur á Eistanna.
Íslendingar byrjuðu leikinn vel komust yfir á 9. mínútu þegar Rúrik Gíslason batt endahnútinn á góða sókn. Eftir markið komu Eistarnir meira inn í leikinn og þeim tókst svo að jafna metin á 55. mínútu þegar Konstantin Vassiljev skoraði með góðu skoti eftir að Emil Hallfreðsson hafði misst boltann klaufalega á miðjum vallarhelmingi íslenska liðsins.
Það sem eftir lifði leiksins sóttu liðin á víxl. Alfreð Finnbogason komst næst því að skora en markvörður Eistanna varði skot hans í horn. Þar með gerðu Eistland og Ísland fyrsta jafnteflið en fram að leiknum í dag höfðu þjóðirnar mæst fjórum sinnum þar sem Ísland hafði unnið þrjá leiki en Eistland einn.
Bein lýsing:
90+4 Leiknum er lokið.
90. Uppbótartíminn er þrjár mínútur.
89. Alfreð Finnbogason átti gott skot sem markvörður Eista gerði vel í að verja í horn. Eitt besta færi Íslands í langan tíma sem kom eftir vel útfærða sókn.
85. Sjötta og síðasta skiptingin hjá íslenska liðinu. Markaskorarinn Rúrik Gíslason fer af leikvelli fyrir Birki Má Sævarsson.
73. Eistarnir hafs sótt mjög í sig veðrið síðustu mínúturnar og hafa nokkrum sinnum verið nálægt því að komast í góð færi.
65. Góður kafli hjá íslenska liðinu sem hefur sótt nokkuð stóft síðustu mínútur leiksins.
61. Íslendingar eru rændir augljósri vítaspyrnu. Rúrik sendi fyrir boltann fyrir markið sem fór beint í útrétta hönd varnarmanns Eista. Dómarinn lokaði augunum og dæmdi ekkert.
60. Rúnar Már Sigurjónsson kemur inná fyrir Emil Hallfreðsson. Ólafur Ingi Skúlason tekur við fyrirliðabandinu af Emil.
59. Mikil hætta upp við mark Eista eftir góða fyrirgjöf Ara Freys en heimamenn náðu að bjarga á elleftu stundu.
55. MARK!, 1:1 Eistar eru búnir að jafna metin. Emil Hallfreðsson missti boltann illa á miðjum vallarhelmingi Íslands. Þar fékk Konstantin Vassiljev boltann og hann komst óáreittur upp að vítateignum og skoraði með hnitmiðuðu skoti.
53. Síðari hálfleikurinn hefur farið rólega af stað og engin færi hafa litið dagsins ljós eftir leikhléið.
46. Síðari hálfleikur er hafinn. Fjórar breytingar voru gerðar á íslenska liðinu. Ólafur Ingi Skúlason, Ari Freyr Skúlason, Ragnar Sigurðsson og Jóhann Berg Guðmundsson eru komnir inná fyrir Jón Guðna Fjóluson, Jón Daða Böðvarsson, Guðlaug Victor Pálsson og Hörð Björgvin Magnússon.
45. 1:0 fyrir Íslandi í Tallin. Hálfleikur.
45. Konstantin Vassiljev með hörkuskalla en Ögmundur varð frábærlega! Eistarnir for upp hægri kantinn og góð fyrirgjöf kom inn en skallinn hjá Vassiljev úr dauðafæri var varinn.
44. Alfreð Finnbogason vinnur boltann af Ragnar Klavan fyrirliða en skot hans var varið. Ísland fékk hornspyrnu en náði ekki að gera sér mat úr henni. Vel gert hjá Alfreð að koma sér í þetta færi.
38. Zenjov hársbreidd frá því að koma höfðinu í boltann sem fór hins vegar framhjá öllum leikmönnum í teignum. Okkar menn heppnir!
36. Darraðardans í teig Íslendinga sem bruna síðan í skyndisókn. Viðar Örn ætlaði að leika á varnarmann Eista en missti boltann.
33. Alfreð Finnbogason í dauðafæri en skýtur framhjá. Alfreð átti að gera betur. Það var hins vegar greinilega brotið á honum og hefði dómarinn farið 100% eftir bókinni hefði hann átt að dæma víti. Reynslubrot þarna hjá Eistum.
31. Eistar fá hornspyrnu. Þeim gengur of vel að koma sér í hættulegar stöður núna. Íslenska liðið þarf að vera þéttara. Ekkert varð úr hornspyrnunni.
24. Zenjov, varamaður Eistanna kemst einn í gegnum vörn Íslands en skot hans var slakt og Ögmundur varði án vandræða. Jón Guðni náði að þvinga hann í erfitt skot.
18. Viðar Örn komst einn í gegnum vörn Eista eftir sendingu frá Alfreð en skot hans úr talsvert þröngu færi var varið.
16. Íslendingar hafa haft fín tök á leiknum en Eistarnir eru hins vegar að sækja í sig veðrið.
12. Raio Piiroja fer af velli í sínum síðasta landsleik. Eistarnir hafa sínar aðferðir við að kveðja. Hann skilur því miður fyrir Eista í tapstöðu. Inn kemur Sergei Zenjov.
12. Hætta við mark Íslands. Fyrst kom hættuleg sending inn í teig og svo skot rétt yfir markið.
9. MARK, 0:1. Rúrik Gíslason kemur Íslandi yfir með skoti í fjærhornið af stuttu færi. Jón Daði átti stoðsendinguna úr miðjum teignum eftir að hafa fengið boltann af hægri kantinum frá Hauku Heiðari í bakverðinum. Viðar Örn hitti ekki boltann sem fór lukkulega á Jón Daða.
3. Leikið er á A. Le Coq Arena vellinum í Tallin. Hann rúmar 9692 áhorfendur en stúkurnar eru þó ekki fullar.
1. Leikur hafinn. Ísland leikur hvítum búningum og bláum sokkum. Eistar eru í bláum treyjum, svörtum stuttbuxum og hvítum sökkum.
0. Raio Piiroja leikur að því er virðist sinn síðasta leik fyrir Eista í dag. Hann fer hlaðinn gjöfum frá vellinum í kvöld.
0. Skemmtilegt hjá Eistunum. Þeir fengu nokkra krakka til að vera forsöngvara fyrir þjóðsöng þjóðarinnar.
0. Lofsöngurinn.
0. Kíkjum á veðrið í Tallin við Kirjálabotn. Það er fimm stiga hiti, heiður himinn og fimm metrar á sekúndu. Sem sagt, smá gola.
0. Eistarnir hafa varnarsinnað og skipulagt lið og andstæðingar þess eiga oft í miklum vandræðum með að skora gegn þeim. Í síðustu sjö leikjum Eista hefur aðeins eitt mark verið skorað.
0. Byrjunarlið Eistlands: Aksalu, Teniste, Jääger, Klavan, Kallaste, Alliku, Dmitrijev, Mets, Kruglov, Vassiljev, Piiroja.
Varamenn: Pareiko, Pikk, Artjunin, Morozov, Kams, Lindpere, Raudsepp, Anier, Zenjov, Ojamaa, Antonov, Purje.
0. Byrjunarlið Íslands:
Markvörður
Ögmundur Kristinsson, Randers
Bakverðir
Haukur Heiðar Hauksson, AIK
Hörður Björgvin Magnússon, Cesena
Miðverðir
Hallgrímur Jónasson, OB
Jón Guðni Fjóluson, GIF Sundsvall
Miðtengiliðir
Emil Hallfreðsson, Hellas Verona (fyrirliði)
Guðlaugur Victor Pálsson, Helsingborg
Vængmenn
Rúrik Gíslason, Köbenhavn
Jón Daði Böðvarsson, Viking
Framherjar
Alfreð Finnbogason, Real Sociedad
Viðar Örn Kjartansson, Jiangsu Sainty