Draumamark Ólafs tryggði Stjörnunni sigur

Pablo Punyed sendir boltann fyrir mark ÍA í leiknum á …
Pablo Punyed sendir boltann fyrir mark ÍA í leiknum á Akranesi í dag. mbl.is/Eva Björk

Stjörnumenn hófu titilvörn sína á sigri á Akranesi gegn ÍA en eina mark leiksins skoraði Ólafur Karl Finsen úr stórkostlegri aukaspyrnu í fyrri hálfleik.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Leikurinn var hin fínasta skemmtun en Stjörnumenn tóku fjótt stjórn á honum og héldu boltanum vel innan síns liðs. Þeir hófu leik með Jeppe Hansen og Pablo Punyed frammi og þeir félagar voru afar líflegir en á miðjunni með þá Halldór Orra Björnsson og Þorra Geir Rúnarsson réðu Stjörnumenn ríkjum.

Fyrsta mark leiksins og Íslandsmótsins skoraði Ólafur Karl Finsen með hreint út sagt stórkostlegri aukaspyrnu í stöng og inn af tæplega þrjátíu metra færi, 1:0. Skagamenn gátu lítið við því gert, sannarlega algjört draumamark.

Ólafur Karl hefði getað bætt við öðru marki skömmu síðar eftir að sending Jeppe Hansen kom honum einum í gegn en skot Ólafs var varið auðveldlega af Árna Snæ í marki Skagamanna.

Með Garðar Gunnlaugsson og Arsenij Buinickij mjög ferska frammi náðu Skagame   oft að skapa usla í vörn Garðbæinga en aldrei komust þeir í góð færi í fyrri hálfleik og staðan 1:0 fyrir Garðbæinga þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Skagamenn spiluðu betur í síðari hálfleik og fengu nokkur færi. Jón Vilhelm Ákason fékk besta færi Skagamanna í leiknum á 53. mínútu þegar að hann fékk sendingu inn í teig frá Arnari Má Guðjónssyni en skalli hans, nánast af markteig, fór rétt yfir.

Á 62. mínútu var komið að Stjörnumönnum en þá þræddi Jeppe Hansen boltann á Ólaf Karl í annað skipti í leiknum. Ólafur slapp einn í gegn en aftur varði Árni Snær frá honum.

Ólafur Karl Finsen fiskaði vítaspyrnu á 87. mínútu þegar að Ármann Smári Björnsson braut á honum að mati Þórodds Hjaltalín, dómara leiksins. Ólafur steig sjálfur á punktinn en Árni Snær Ólafsson kórónaði frábæran leik sinn og varði spyrnuna frá Ólafi.

Garðar Gunnlaugsson fékk frábært færi í uppbótartíma en skallaði knöttinn yfir og því var sigurinn í höfn hjá Garðbæingum.

Fylgst er með öllu sem gerist í öllum leikjum dagsins í ÍSLENSKA BOLTANUM Í BEINNI þar sem einnig birtist ýmiss konar fróðleikur og athugasemdir tengdar leikjunum.

ÍA 0:1 Stjarnan opna loka
90. mín. Ásgeir Marteinsson (ÍA) á skot framhjá
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka