Víti í súginn og jafntefli í Árbæ

Ingimundur Níels Óskarsson með boltann og Blikinn Davíð Kristján Ólafsson …
Ingimundur Níels Óskarsson með boltann og Blikinn Davíð Kristján Ólafsson sækir að honum í Lautinni í kvöld. Kristinn Ingvarsson

Fylkir og Breiðablik skildu jöfn í lokaleik 1. umferðar Pepsi-deildar karla í knattspyrnu á Fylkisvelli í kvöld, 1:1. Fylkismenn klúðruðu víti í seinni hálfleiknum.

Það var heldur fátt um fína drætti í fyrri hálfleiknum. Blikar fengu nokkrar aukaspyrnur á vallarhelmingi Fylkis en tókst ekki að nýta sér það. Fylkismenn leituðu mikið til Alberts Brynjars Ingasonar, eða áttu langar sendingar sem hittu ekki á samherja, en Albert var lúsiðinn og sá eini sem náði að skapa eitthvað svo heitið gæti.

Albert kom Fylki svo yfir með glæsilegum skalla í stöng og inn á 38. mínútu, eftir ekki síður glæsilega fyrirgjöf Ásgeirs Eyþórssonar sem lék í stöðu vinstri bakvarðar en ekki miðvarðar eins og hann er vanur. Staðan 1:0 í hálfleik.

Bæði lið gerðu breytingu í hálfleik og það var varamaður Blika, Guðjón Pétur Lýðsson, sem jafnaði metin snemma í seinni hálfleik úr vítaspyrnu. Blikar hófu seinni hálfleikinn af miklum krafti og það var Davíð Kristján Ólafsson sem nældi í vítaspyrnuna. Króatíski miðvörðurinn Tonci Radovnikovic braut á honum rétt innan teigs.

Höskuldur Gunnlaugsson var nálægt því að koma Blikum yfir eftir hornspyrnu þegar hann skallaði af markteig, nánast óáreittur, en beint í þverslána.

Fylkismenn fengu svo vítaspyrnu eftir tæplega klukkutíma leik þegar Gunnlaugur Hlynur Birgisson braut á Alberti. Albert tók spyrnuna sjálfur en hún var slök og Gunnleifur Gunnleifsson varði.

Liðin fengu ekki teljandi færi eftir þetta og virtust smám saman sætta sig við skiptan hlut.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is. Viðtöl koma inn síðar í kvöld og fjallað verður um leikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins í fyrramálið.

Fylkir 1:1 Breiðablik opna loka
90. mín. Leik lokið Sanngjarnt jafntefli niðurstaðan.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka