Kristján Guðmundsson, þjálfari knattspyrnuliðs Keflvíkinga, nær stórum áfanga í kvöld þegar hans menn taka á móti Breiðabliki í Pepsi-deild karla á Nettóvellinum klukkan 20.
Þetta er 200. leikur Kristjáns sem þjálfara í efstu deild karla hér á landi en hann kom fyrst við sögu í deildinni árið 2002 sem þjálfari Þórsara á Akureyri.
Kristján þjálfaði fyrst ÍR árin 1995 og 1996 og tók síðan við Þór í 2. deild 1999 og fór með liðið upp í efstu deild á tveimur árum. Hann tók aftur við ÍR 2003 en var síðan ráðinn þjálfari Keflavíkur 2005 og hefur þjálfað í deildinni frá þeim tíma, að undanskildu árinu 2010 þegar hann stýrði liði HB í Færeyjum.
Kristján var með lið Keflavíkur 2005 til 2009, Val 2011 til 2012, og tók svo við liði Keflavíkur á ný í júní 2013.
Kristján er með nákvæmlega 50 prósent vinningshlutfall í leikjum sinna liða í deildinni en hann hefur stýrt þeim til 74 sigra og 74 sinnum beðið lægri hlut, en 51 leikur hefur endað með jafntefli.
Aðeins einn af þeim þjálfurum sem starfa í deildinni í dag eiga fleiri leiki að baki við stjórnvölinn en það er Ólafur Þórðarson hjá Víkingi sem stýrir sínum 205. leik í deildinni á Akranesi í kvöld.
Kristján hefur fagnað einum bikarmeistaratitli sem þjálfari, með Keflavík 2006, og lengst hefur hans lið náð í deildinni árið 2008 þegar Keflvíkingar höfnuðu í öðru sæti.