Garðar úr leik - Skipti um skó í hálfleik

Garðar Gunnlaugsson leiddur frá leikvellinum eftir að hafa meiðst í …
Garðar Gunnlaugsson leiddur frá leikvellinum eftir að hafa meiðst í viðureigninni við Breiðablik í gærkvöldi. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

„Ég er bara á hækjum eins og er. Staðan er óljós,“ sagði Garðar Gunnlaugsson, framherji ÍA, sem mun væntanlega ekki spila næstu 3-4 vikurnar með liðinu eftir að hafa meiðst í hné í leiknum gegn Breiðabliki í Pepsideildinni í gærkvöld.

Garðar sneri upp á annað hnéð þegar korter var eftir af leiknum, og er útlit fyrir að tognað hafi á liðböndum líkt og hjá Gary Martin, framherja KR, á dögunum. Það myndi væntanlega þýða að Garðar yrði frá keppni í 3-4 vikur og missa af leikjum við Fjölni, Fylki og KR í deildinni, sem og bikarleik við Fjölni 3. júní. Hann fer í nánari skoðun hjá lækni í dag.

„Ég hef aldrei fundið fyrir neinu í hnénu áður. Menn telja að þetta sé ekki krossbandið heldur liðband,“ sagði Garðar, sem kveðst kenna sjálfum sér um meiðslin að nokkru leyti.

„Ég skipti um skó í hálfleik og fór í skrúfutakkaskó. Þeir læstust einhvern veginn í jörðinni þegar ég sneri upp á hnéð,“ sagði Garðar, sem er algjör lykilmaður í liði Skagamanna og varð markakóngur 1. deildar í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert