Sjötta umferð Pepsi-deildar karla er leikin í kvöld og í tilefni af því skoðum við eitt og annað sögulegt úr viðureignum félaganna sem mætast. Þar koma meðal annars við sögu sjúkraþjálfarinn Friðrik Ellert Jónsson, Eyjamaðurinn Haraldur Júlíusson, íþróttafréttamaðurinn Hörður Magnússon og margir fleiri kunnir kappar.
Í kvöld mætast meðal annars einu ósigruðu lið deildarinnar, Breiðablik og Stjarnan, og þar verður fróðlegt að sjá hvort Stjarnan tapar í fyrsta sinn í deildinni frá því í september 2013 eða hvort Blikar tapa fyrsta mótsleik sínum á árinu 2015.
Til að rifja upp stöðuna eftir fimm umferðir þá eru FH og KR með 10 stig, Stjarnan og Breiðablik með 9, Leiknir R., Fylkir og Fjölnir eru með 8 stig, Víkingur R. 6 stig, Valur 5, ÍA 4 og Keflavík og ÍBV sitja á botninum með eitt stig hvert.
Fyrsti leikur kvöldsins hefst á Hásteinsvelli í Vestmannnaeyjum klukkan 17 og sá síðasti á Kópavogsvelli klukkan 20. Viðureignir sjöttu umferðar eru eftirtaldar:
17.00 ÍBV - Víkingur R.
19.15 FH - Leiknir R.
19.15 Fjölnir - ÍA
19.15 Fylkir - Valur
19.15 KR - Keflavík
20.00 Breiðablik - Stjarnan
Stjarnan hefur ekki unnið leik gegn Breiðabliki í efstu deild á Kópavogsvelli í 21 ár, eða frá árinu 1994. Þangað hefur Garðabæjarliðið komið í átta heimsóknir frá þeim tíma og Breiðablik hefur unnið sex leikjanna og tvisvar orðið jafntefli. Leikur liðanna á Kópavogsvelli árið 1994 endaði með 2:1 sigri Stjörnunnar þar sem Eyjamaðurinn Leifur Geir Hafsteinsson skoraði bæði mörk liðsins en Gunnlaugur Einarsson gerði mark Blika.
Í heildina hefur Breiðablik unnið 9 af 20 viðureignum félaganna í efstu deild frá árinu 1991 en Stjarnan hefur unnið 5. Markatalan er 40:29, Blikum í hag. Báðir leikir þeirra í fyrra enduðu með jafntefli, 1:1 á Kópavogsvelli og 2:2 í Garðabæ.
Þjálfarar Breiðabliks og Stjörnunnar hafa báðir skorað tvívegis í viðureignum liðanna í efstu deild. Arnar Grétarsson skoraði sigurmark Blika í Garðabæ, 1:0, árið 1991 og aftur mark í 3:1 sigri í Garðabæ árið 1994. Rúnar Páll Sigmundsson skoraði fyrir Stjörnuna gegn Breiðabliki í deildinni árin 1996 og 2000, og í bæði skiptin í leikjum sem enduðu 3:3.
Ef horft er til sögunnar er ólíklegt að leikur Fylkis og Vals endi með jafntefli. Félögin hafa mæst 30 sinnum í efstu deild frá árinu 1989 og aðeins einu sinni skilið jöfn. Það var markalaust jafntefli í Árbænum árið 2001. Frá þeim tíma hafa 23 leikir í röð endað með sigri annars hvors liðsins. Alls hefur Valur sigrað 16 sinnum en Fylkir 13 sinnum í viðureignum félaganna.
Í fyrra vann Valur sigur á Fylki, 1:0, á Hlíðarenda þar sem Mads Nielsen skoraði sigurmarkið. Ásgeir Eyþórsson og Oddur Ingi Guðmundsson tryggðu Fylki 2:0 sigur í seinni leiknum á Fylkisvelli.
Albert Ingason hefur skorað fyrir bæði lið í viðureignum Fylkis og Vals. Hann skoraði fyrir Árbæjarliðið í leikjum liðanna árið 2007, 2010 og 2011 en fyrir Valsmenn gegn Fylki árið 2008.
ÍBV og Víkingur unnu hvort annað á útivelli í fyrra því Víkingar sigruðu fyrst 2:1 í Eyjum og síðan unnu Eyjamenn 2:1 í Fossvoginum. Útisigrar hafa verið algengir í viðureignum félaganna í efstu deild því af 45 viðureignum hafa 19 endað með sigri útiliðsins. Fyrsti leikurinn fór fram árið 1926 þar sem Víkingar unnu 4:1 en ÍBV hefur unnið 20 viðureignir gegn 15 sigrum Víkings. Markatalan er 80:75, Eyjamönnum í hag.
Oft hefur verið mikið skorað í leikjum Víkings og ÍBV. Viktor Bjarki Arnarsson skoraði tvívegis í 5:0 sigri Víkinga árið 2006. Tryggvi Guðmundsson skoraði þrennu fyrir ÍBV þegar liðið burstaði Víking í Reykjavík, 9:2, árið 1993. Árið áður gerðu Helgi Sigurðsson og Atli Einarsson sína þrennuna hvor í 6:1 sigri Víkings á ÍBV og árið 1991 gerði Guðmundur Steinsson þrennu þegar Víkingur vann 6:0 sigur á Eyjamönnum. Einhverjir af eldri kynslóðinni minnast þess þegar ÍBV vann Víking 6:4 árið 1970. Þá skoraði Haraldur “gullskalli” Júlíusson fjögur mörk fyrir Eyjamenn og Hafliði Pétursson gerði þrennu fyrir Víking.
Keflvíkingar freista þess að skora hjá KR í fyrsta sinn í sex leikjum liðanna í efstu deild. KR hefur unnið síðustu fimm leiki þeirra án þess að fá á sig mark. Guðmundur Steinarsson skoraði síðastur Keflvíkinga gegn KR í 1:1 jafnteflisleik liðanna suður með sjó árið 2012 en síðan hefur KR gert ellefu mörk gegn engu. Óskar Örn Hauksson tryggði KR 1:0 sigur í Keflavík í fyrra og Almarr Ormarsson skoraði síðan bæði mörkin í 2:0 sigri Vesturbæinga á sínum heimavelli.
Keflavík náði þó að skora þegar liðin mættust í úrslitaleik bikarkeppninnar síðasta sumar en þá sigruðu KR-ingar, 2:1, með marki Kjartans Henrys Finnbogasonar á lokamínútunni.
Þetta er 98. viðureign KR og Keflavíkur í efstu deild en þar mættust félögin fyrst árið 1958. KR hefur unnið 36 leiki en Keflavík 32. Stærsti sigur KR er 8:1 á Laugardalsvellinum þar sem Ellert B. Schram og Þórólfur Beck fóru á kostum. Ellert skoraði fjögur mörk fyrir KR og Þórólfur gerði þrjú og lagði upp fjögur. Stærsti sigur Keflvíkinga er 5:1 á sínum heimavelli árið 1974 þar sem Ólafur Júlíusson skoraði þrennu.
Keflvíkingar hafa ekki unnið í síðustu sjö heimsóknum síðan í Vesturbæinn, eða síðan þeir unnu þar 2:1 sigur árið 2007 þar sem Guðmundur Steinarsson og Símun Samuelsen skoruðu mörk þeirra.
Fjölnir og ÍA hafa aðeins einu sinni áður verið saman í efstu deild en það var árið 2008. Þá höfðu Fjölnismenn betur í báðum leikjum liðanna. Þeir unnu 2:0 í Grafarvogi þar sem Pétur Markan og Gunnar Már Guðmundsson skoruðu mörkin, og svo 3:0 á Akranesi þar sem Ólafur Páll Snorrason skoraði tvö mörk og Kristján Hauksson eitt.
Félögin mættust svo fjórum sinnum í 1. deild á árunum 2010 og 2011. Þrír leikjanna enduðu með jafntefli en einn með 6:0 sigri Skagamanna þar sem Hjörtur Hjartarson skoraði þrjú mörk og Gary Martin tvö.
FH og Leiknir hafa að sjálfsögðu aldrei áður mæst í efstu deild. Félögin hafa einu sinni áður verið saman í deild en þau léku bæði í 1. deildinni árið 1996. Þá gerðu liðin jafntefli, 1:1, á Leiknisvelli þar sem Friðrik Ellert Jónsson, núverandi sjúkraþjálfari Stjörnunnar, kom Leikni yfir en Hörður Magnússon, íþróttafréttamaður, jafnaði metin fyrir FH.
Seinni leikurinn í Kaplakrika endaði 2:1 fyrir FH og þar skoraði Hörður aftur fyrir FH-inga, sem og Guðmundur Valur Sigurðsson, en Vignir Sverrisson gerði mark Leiknismanna.