„Mér leiðist ekkert að koma upp völlinn, það er hluti af mínum leikstíl en stundum geri ég kannski fullmikið af því,“ sagði bakvörðurinn Kristinn Jónsson í liði Breiðabliks, en hann er leikmaður sjöttu umferðar Pepsi-deildar karla í knattspyrnu að mati Morgunblaðsins. Kristinn átti stóran þátt í öllum mörkum Blika í 3:0-sigri þeirra á Íslandsmeisturum Stjörnunnar á sunnudag, sem tapaði þar sínum fyrsta deildaleik frá haustinu 2013.
„Þetta var hrikalega góður leikur alveg frá markmanni til fremsta manns. Það væri hægt að taka hvern einasta mann út úr liðinu og segja hversu vel hann stóð sig. En það er alltaf gaman að leggja upp eða skora mörk, það er bara aukabónus,“ sagði Kristinn við Morgunblaðið í gær, en hann fór oft illa með varnarmenn Stjörnunnar í leiknum þegar hann kom á ferðinni upp vænginn.
„Ég þarf stundum að halda aftur af mér en það er hrikalega gaman að taka þátt í sóknarleiknum og Breiðablik spilar fótbolta sem hentar mér mjög vel,“ sagði Kristinn, sem setti sér markmið fyrir tímabilið hversu mörg mörk hann ætlaði sér að leggja upp. „Ég og Andri Yeoman erum í smáveðmáli um fjölda stoðsendinga í sumar og ég er kominn ansi nálægt markmiðinu eins og staðan er í dag. En við höldum því fyrir okkur þar til ég næ tölunni,“ sagði Kristinn.
Blikarnir skutust með sigrinum upp í þriðja sætið og eru ósigraðir á þessu almanaksári. Þeir unnu bæði undirbúningsmótin fyrir tímabilið og eru nú einir liða taplausir í deildinni. Kristinn segir Blika þó með báða fætur á jörðinni, en markmiðin séu skýr.
Sjá nánar ítarlegt viðtal við Kristin í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag og þar er einnig úrvalslið Morgunblaðsins úr 6. umferð deildarinnar.