Gunnlaugur Jónsson, þjálfari Skagamanna var ánægður með stigið í kvöld sem liðið fékk þegar það mætti Fylki en niðurstaðan varð markalaust jafntefli í þessari sjöundu umferð Pepsi-deildar karla.
„Ég tek þessu stigi fagnandi. Leikurinn er mikil framför hjá okkur, allavega það sem við leggjum í hann. Það var barátta í okkur og við höldum markinu hreinu sem er mjög jákvætt. Þetta var mikil framför frá síðustu leikjum á móti Fjölni sem var okkur ekki til sóma,“ sagði Gunnlaugur við mbl.is eftir leikinn í kvöld.
Það vantaði hins vegar afar mikið sóknarlega hjá Skaganum í kvöld. Liðið saknar Garðarson Gunnlaugssonar afar mikið og Gunnlaugur veit af þessum sóknarvandræðum liðsins.
„Það er ekkert launungarmál að við eigum ýmislegt inni þar en fyrst og fremst snerist þetta um að halda markinu hreinu og svo vonandin að læða einu inn í lokin en við vorum ekki að „all in“ í sóknarleiknum. Við þurftum að halda þesum punkti og við þiggjum hann, við þurfum á stiginu að halda til að halda okkur frá botninum,“ sagði Gunnlaugur en ÍA hefur fimm stig, stigi meira en Keflavík og ÍBV í fallsætunum en það var baráttan sem skilaði liðinu stigi í dag.
„Ekki spurning. það var gríðarlega mikil barátta í liðinu í dag og mér fannst liðsheildarbragur vera á þessu. Við vorum að vinna fyrir hvorn annan og við þurfum að ná því upp ef við ætlum að ná inn einhverjum stigum, sagði Gunnlaugur.