„Við höfum verið að spila mjög vel. Markmiðið í hverjum einasta leik er að halda hreinu og við vitum að þá vinnum við. Þetta hefur gengið upp í síðustu leikjum,“ sagði Damir Muminovic, miðvörður Breiðabliks, eftir sigurinn á Leikni í Pepsideildinni í kvöld.
Þetta var fjórði leikurinn í röð sem Breiðablik vinnur og það sem meira er þá hefur liðið ekki fengið á sig mark í þessum leikjum. Damir og Elfar Freyr Helgason virðast ná mjög vel saman í miðri vörninni, með Gunnleif Gunnleifsson landsliðsmann í markinu fyrir aftan sig:
„Elli er mjög frábær týpa og það er geggjað að spila með honum. Mér sýnist Gulli svo vera í toppstandi og það er bara frábært. Hann er langbesti markmaðurinn á Íslandi,“ sagði Damir. Í bakvarðastöðunum eru svo Arnór Sveinn Atlason og Kristinn Jónsson sem eru báðir afar duglegir við að taka þátt í sóknarleiknum. Það virðist þó ekki bitna á vörninni:
„Það er mjög þægilegt að hafa þá báða frammi í sóknarleiknum. Við höfum svo Oliver fyrir framan okkur þegar við erum að verjast þannig að þetta er ekkert vandamál. Við erum mjög skipulagðir og þess vegna komast mjög fáir framhjá okkur,“ sagði Damir.
Sjáum til hvort við eigum séns í titilinn
Blikar höfðu unnið síðustu leiki þrátt fyrir að þeirra aðalframherji, Ellert Hreinsson, hefði enn ekki náð að skora á Íslandsmótinu. Það breyttist hins vegar í kvöld en Ellert kom Blikum yfir rétt fyrir lok fyrri hálfleiks:
„Ég er búinn að hóta honum fyrir fjóra síðustu leiki að ég myndi taka hann út úr fantasy-liðinu mínu ef hann skoraði ekki, en hann skilaði marki núna sem betur fer,“ sagði Damir léttur.
Breiðablik er nú með 15 stig í 2. sæti deildarinnar, stigi á eftir FH, og hefur enn ekki tapað leik. Er stefnan sett á titilinn í Kópavogi?
„Við vitum markmið okkar. Við ætlum að komast í Evrópukeppni og svo sjáum við til hvort við eigum séns í titilinn eða ekki,“ sagði Damir.