Kominn heim til að bæta besta árangurinn

Ólafur Páll Snorrason er kominn aftur heim í Fjölni sem …
Ólafur Páll Snorrason er kominn aftur heim í Fjölni sem hefur byrjað Íslandsmótið afar vel. mbl.is/Kristinn

„Ég hugsa nú að það hafi ekki margir búist við því að Fjölnisliðið færi í Garðabæinn og tæki þrjú stig en við vissum hvað við ætluðum að gera,“ sagði Ólafur Páll Snorrason, spilandi aðstoðarþjálfari Fjölnis, en hann er leikmaður sjöundu umferðar Pepsi-deildar karla í knattspyrnu að mati Morgunblaðsins. Ólafur Páll átti skínandi leik þegar Fjölnir vann sterkan 3:1 útisigur á Íslandsmeisturum Stjörnunnar á sunnudagskvöldið sem fleytti Grafarvogsliðinu upp í þriðja sæti deildarinnar.

Ólafur Páll tekur undir að sigurinn endurspegli að mörgu leyti öfluga byrjun Fjölnismanna í sumar, sem með frammistöðu sinni í fyrstu leikjunum hafa blásið á þær spár sem fyrir tímabilið gerðu ráð fyrir erfiðu gengi þeirra og jafnvel falli. „Jú, það má segja það, við erum að standa okkur mjög vel en það er lítið búið af mótinu. Spárnar voru kannski eðlilegar miðað við hvað Fjölnir er ungt félag með marga óreynda leikmenn, en við reynum hvað við getum að halda áfram á þessari braut,“ sagði Ólafur Páll.

Hann segir markmið liðsins fyrst og fremst vera að bæta besta árangur félagsins í efstu deild, en það er sjötta sætið sem Fjölnismenn náðu árið 2008. „Við förum ekkert leynt með það, en eitthvað þar fyrir ofan verður að ráðast eftir því hvernig sumarið þróast. Maður gerir ráð fyrir því að liðin í neðri hlutanum fari að sanka að sér stigum, svo að þetta verður barátta alveg fram í síðasta leik. Við eigum gríðarlega erfiðan leik gegn Leiknismönnum næst, sem verður að mörgu leyti erfiðari en gegn Stjörnunni. Við gerum ráð fyrir því að þeir mæti með þannig hugarfar að okkur verður ekki gefið eitt né neitt,“ sagði Ólafur Páll, sem er 33 ára gamall og sneri aftur á heimaslóðir í Grafarvoginum í vetur.

Ítarlegt viðtal við Ólaf Pál er í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag. Þar er einnig að finna úrvalslið 7. umferðar og ýmsan fróðleik tengdan umferðinni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka