Jón Daði átti að stressa Tékkana

„Þetta er góð tilfinning. Það er ekki hægt að lýsa því öðruvísi. Það er æðislegt að fá sigur úr þessum gríðarlega mikilvæga leik. Þetta eru frábær úrslit fyrir framhaldið,“ sagði Selfyssingurinn Jón Daði Böðvarsson sem kom inn á sem varamaður í kvöld í 2:1 sigrinum frækna á Tékkum í undankeppni Evrópumótsins í knattspyrnu.

Jón Daði hefur byrjað inn á í þremur leikjum íslenska liðsins af sex en kom inn á sem varamaður í kvöld. Skilaboðin frá Lars og Heimi voru skýr.

„Maður fékk þau skilaboð að pressa hátt uppi og stressa þá aðeins fyrir aftan. Mér fannst ég gera það ágætlega,“ sagði Jón Daði.

„Þetta var svolítið tilviljanakennt. Ég fékk þarna sendingu frá Jóa Berg, ég á hann og hann aftur á mig. Ég ætla svo að reyna að finna Kolla þarna og það fer einhvern veginn í Tékka og í gegn til Kolla og hann klárar þetta með stæl,“ sagði Jón Daði um sigurmarkið sem Kolbeinn Sigþórsson skoraði en Jón Daði átti eins og frásögn hans bendir til stóran þátt í því.

Nánar er rætt við Jón Daða í myndskeiðinu hér að ofan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert