Risastórt skref í átt til Frakklands

Ísland er komið á topp A-riðils undankeppni EM í knattspyrnu með 15 stig eftir að hafa unnið 2:1-sigur á Tékklandi á Laugardalsvelli í kvöld.

Tyrkir unnu Kasakstan 1:0 á útivelli í Almaty í fyrsta leik dagsins í dag og Holland vann Lettland 2:0. Staðan er þá sú að Ísland er með 15 stig, Tékkland 13, Holland 10, Tyrkland 8, Lettland 3 og Kasakstan 2 stig. Þetta var sjötta umferðin af tíu en fjórar síðustu umferðirnar eru síðan leiknar í september og október.

Tvö efstu lið riðilsins komast beint á EM í Frakklandi næsta sumar og 3. sætið dugar til að komast í umspil hið minnsta.

Tékkarnir byrjuðu leikinn betur og íslensku strákunum gekk illa að ná upp góðu samspili. Eftir korters leik kom langbesta færi fyrri hálfleiks en Tomás Necid skallaði þá framhjá eftir frábæra fyrirgjöf Pavel Kaderábek frá hægri.

Það var líkt og íslenska liðið vaknaði betur til lífsins við þennan skalla. Kolbeinn Sigþórsson og Aron Einar Gunnarsson gerðu vel í að ná í tvær aukaspyrnur í röð við vítateig Tékka, í draumafærum fyrir Gylfa Þór Sigurðsson. Petr Cech varði fyrri spyrnuna vel en sú seinni fór rétt yfir vinstri markvinkilinn.

Öll mörkin komu hins vegar í seinni hálfleik. Tékkar komust yfir með góðu skoti frá Borek Dockal á 55. mínútu. Þetta mark kveikti svo sannarlega í íslenska liðinu og það virtist aðeins tímaspursmál hvenær tækist að jafna metin. Það tókst þegar Aron Einar Gunnarsson skoraði með föstum og góðum skalla eftir frábæra sendingu Ara Freys Skúlasonar yfir vörn Tékkanna. Sigurmarkið skoraði svo Kolbeinn Sigþórsson eftir að hafa leikið laglega á Petr Cech, markvörð Tékka.

Tékkar reyndu hvað þeir gátu að jafna metin í lokin og fjölguðu verulega í sóknarleik sínum. Þeir fengu reyndar algjört dauðafæri til að skora rétt áður en Kolbeinn skoraði en Ladislav Krejcí missti boltann frá sér, einn gegn Hannesi markverði. Cech kom fram í lokahornspyrnu leiksins og átti skalla en Hannes varði hann af öryggi áður en William Collum flautaði til leiksloka.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is og viðtöl koma hér inn innan skamms. Fjallað verður ítarlega um leikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins í fyrramálið.

Ísland 2:1 Tékkland opna loka
90. mín. Ísland fær hornspyrnu
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert