KA sigraði Breiðablik, 1:0, eftir framlengdan leik í 16-liða úrslitum bikarkeppni karla á Kópavogsvelli í kvöld og eru þar með komnir í 8-liða úrslit bikarkeppninnar en Breiðablik getur nú einbeitt sér að baráttunni framundan í Pepsi-deildinni.
Fyrri hálfleikur var tíðindalítill. Breiðablik fékk tvö ágæt færi, Ellert Hreinsson í bæði skiptin en honum tókst ekki að skora. Í fyrra skiptið skaut hann framhjá af markteig á 18. mínútu en á 24. mínútu varði Rajkovic ágætt skot Ellerts. KA lágu aftarlega, gáfu fá færi á sér og voru skipulagðir.
Í síðari hálfleik gerðist ekkert markvert lengi vel. Aðeins lifnaði yfir leiknum undir lokin en þá var eins og liðin áttuðu sig á að leikurinn yrði framlengdur eftir hann yrði markalaus. Atli Sigurjónsson átti skot í stöng fyrir Breiðablik á 74. mínútu og tveimur mínútum síðar skaut Ævar Ingi Jóhannesson rétt framhjá fyrir norðanpilta. KA fékk síðan frábært færi á 90. mínútu en Elfar Árni Aðalsteinsson skaut í stöngina og stuttu síðar flautaði Vilhjálmur Alvar Þórarinsson dómari til leiksloka og því þurfti að framlengja.
Í framlengingunni komust KA-menn yfir á 98. mínútu. Halldór Hermann Jónsson komst þá upp hægri kantinn og sendi boltann fyrir þar sem Ævar Ingi Jóhannesson skallaði boltann í markið. Eftir markið pressuðu Blikar stíft en náðu ekki að gera það sem þarf, að skora. KA er því komið áfram í 8-liða úrslit bikarkeppninnar, eina liðið þar sem er ekki í Pepsi-deildinni.
Fylgst er með gangi mála í öllum leikjum dagsins í ÍSLENSKA BOLTANUM Í BEINNI hér á mbl.is.