Þorsteinn Halldórsson telur að vinnusigur sé rétta orðið yfir sigur Blika í kvöld á Selfossi í slag liðanna í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu en lokatölur urðu 1:0 í miklum baráttuleik þar sem Fanndís Friðriksdóttir skoraði eina mark leiksins úr vítaspyrnu.
„Það er vel að orði komist. Þetta var hörkuleikur og barátta. Það var ekki mikið um opin færi og þær fengu held ég ekkert opið færi á meðan við fengum tvö þrjú í seinni hálfleik og eitt í fyrri hálfleik,“ sagði Þorsteinn.
Honum kemur gott gengi Selfyssinga ekki neitt á óvart en liðið hafði fyrir leikinn í kvöld unnið fimm leiki í röð.
„Það kemur mér alls ekki á óvart að Selfoss sé í þessari stöðu. Þetta er lið sem kemur til þess að berjast á toppnum á þessu tímabili. Alveg pottþétt. Þær hafa góða einstaklinga og flott lið. Það var erfitt að spila á móti þeim,“ sagði Þorsteinn.
Blikar komust með sigrinum í dag í fjögurra stiga forskot á toppi deildarinnar. Liðið hefur 19 stig á meðan Íslandsmeistarar Stjörnunnar eru með 15 stig, jafn mörg og Selfoss.
„Þetta gefur okkur allavega fína stöðu í dag. Það þarf samt bara að halda haus í þessu. Mótið er ekki einu sinni hálfnað, fjögurra stiga forskot er ekki neitt,“ sagði Þorsteinn en stefnan hjá Blikum er að sjálfsögðu að vinna sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil síðan árið 2005.
„Það er stefnan. Við ætlum að vinna næsta leik og halda áfram. Vonandi verður þetta bara endanleg niðurstaða,“ sagði Þorsteinn.