„Það er virkilega gott og jákvætt að við skulum vera byrjaðir að skora. Ég vissi að við hefðum það alveg í okkur að sækja og skora, enda gerðum við mikið af því í vetur, þannig að við þurftum bara að komast í gang,“ sagði Ásgeir Marteinsson, leikmaður 9. umferðar í Pepsideild karla í knattspyrnu að mati Morgunblaðsins. Ásgeir átti frábæran leik og skoraði eitt marka ÍA þegar liðið vann 4:2-sigur á Keflavík og kom sér fimm stigum frá fallsvæðinu.
„Við lögðum gríðarlega mikið upp úr sigri því þetta var einfaldlega sex stiga leikur,“ sagði Ásgeir. Hann kom inn í fremstu víglínu Skagamanna fyrir leikinn gegn KR í 8. umferð, og skoraði mark ÍA í 1:1-jafntefli. Það mark var ansi langþráð því ÍA hafði leikið fjóra leiki, í deild og bikar, í röð án þess að skora mark.
„Gulli [Gunnlagur Jónsson þjálfari] talaði við mig fyrir KR-leikinn og sagði mér að þegar ég væri kominn á fremsta vallarþriðjunginn mætti ég gera það sem ég kann best. Þar hefði ég frjálsræði og mætti bara spila minn leik,“ sagði Ásgeir, og þau skilaboð virðast hafa skilað árangri. Þeir Ásgeir og Arsenij Buinickij voru svo aftur fremstir gegn Keflavík í fyrrakvöld, en ÍA hefur verið án Garðars Gunnlaugssonar síðustu vikur vegna meiðsla:
»Við höfum verið að spila með tvo framherja og ég hef verið annar þeirra í síðustu tveimur leikjum. Það hefur gengið mjög vel. Áður var ég mikið í því að koma inn á og spilaði þá á kantinum. Það gekk svona misjafnlega,“ sagði Ásgeir, sem var því búinn að fylgjast með því af hliðarlínunni hve illa liðinu gekk að skora.
Viðtalið við Ásgeir má sjá í heild í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag. Þar má einnig finna úrvalslið 9. umferðar og fróðleik tengdan umferðinni.