„Þykir vænt um Leikni“

Skúli Jón Friðgeirsson í barattu Steven Lennon í leik gegn …
Skúli Jón Friðgeirsson í barattu Steven Lennon í leik gegn FH fyrr í sumar. mbl.is / Golli / Kjartan Þorbjörnsson

KR-ingar leika við Leikni í tíundu umferð Pepsi deildar karla í knattspyrnu á Alvogen vellinum klukkan 19.15 í kvöld. Skúli Jón Friðgeirsson sem hefur verið afar traustur í vörn KR liðsins í sumar sleit barnsskónum í knattspyrnu í Breiðholtinu og hann segist bera hlýjar tilfinningar til Leiknis. 

„Það verður vissulega skemmtilegt að mæta Leikni í kvöld. Þó að ég hafi nú bara verið í Leikni sem krakki að þá hefur mér alltaf þótt vænt um félagið og er því fyrst og fremst glaður að sjá félagið sé mætt í efstu deild í fyrsta skipti í sögu félagsins.“

KR vann góðan sigur á Stjörnunni í síðustu umferð og Skúli Jón telur að sá sigur hafi verð afar mikilvægur fyrir framhaldið. 

„Við mætum fullir sjálfstrausts til leiks í kvöld. Sigurinn á Stjörnunni kom okkur aftur í fína stöðu í deildinni og við spiluðum fínan fótbolta í þeim leik. Vonandi getum við haldið því áfram og styrkt stöðu okkar í deildinni enn frekar. Við stefnum á að berjast um að vera í toppsætinu allt til enda og ef við ætlum okkur að ná því þurfum við halda áfram á sigurbraut.“

„Við þurfum aðallega að mæta þeim í baráttunni í leiknum í kvöld. Leiknismenn eru harðir í horn að taka og við þurfum að mæta ákveðnir til leiks. Ef að við gerum það og náum upp okkar spili er ég mjög bjartsýnn fyrir kvöldið.“

Skúli býst við því að það verði mikil og góð stemming í Frostaskjólinu í kvöld og hlakkar mikið til leiksins. 

Jú maður hefur bara heyrt góða hluti um Leiknisljónin og það verður gaman að fá þá í Vesturbæinn. Miðjan stendur ávallt fyrir sínu og mun eflaust eflast við það að fá svona öfluga stuðningssveit í heimsókn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert