Getum vonandi endað í hópi þriggja efstu liða

Pedersen umkringdur FH-ingum.
Pedersen umkringdur FH-ingum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Danski framherjinn Patrick Pedersen hefur svo sannarlega reynst Valsmönnum vel frá því að hann kom til félagsins fyrst sumarið 2013.

Pedersen hefur verið sjóðheitur og er nú búinn að skora 8 mörk í fyrstu 10 umferðum Pepsi-deildarinnar. Daninn skæði átti flottan leik í 4:2 sigri Valsmanna á móti ÍA á sunnudaginn. Hann skoraði tvö mörk og gerði hvað eftir annað usla í vörn Skagamanna. Pedersen er leikmaður 10. umferðar Pepsi-deildarinnar að mati Morgunblaðsins.

„Ég vil alltaf skora mörk og ég fer í hvern leik til að gera mitt allra besta fyrir liðið. Það hefur bara gengið vel í sumar og ég er ánægður með mína frammistöðu og liðsins,“ sagði Pedersen í samtali við Morgunblaðið.

Pedersen, sem verður 24 ára gamall síðar á árinu, kom fyrst til Vals í júlí 2013 sem lánsmaður frá danska B-deildarliðinu Vendsyssel. Hann skoraði fimm mörk í níu leikjum Vals í deildinni það ár og í fyrra skoraði hann hann sex mörk í þrettán leikjum áður hann sneri aftur til síns félags í Danmörku. Valsmenn sóttu það hart að fá Pedersen aftur til liðs við sig fyrir þetta tímabil og þeir sjá ekki eftir því. Hann hefur farið á kostum og á stóran þátt í góðu gengi Hlíðarendaliðsins í sumar. Ólafur Jóhannesson, þjálfari Valsmanna, lét hafa eftir sér á dögunum að Pedersen væri besti framherjinn í deildinni.

„Það var ljúft að heyra þetta en ég veit ekki hvort hann hefur rétt fyrir sér. Mér hefur gengið vel að skora í sumar og vonandi heldur það bara áfram, sem og gott gengi okkar,“ sagði Pedersen.

Sjá allt viðtalið við Pedersen og lið 10. umferðar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka