FH-ingar mæta hinu afar unga félagi SJK Seinäjoki frá Finnlandi í seinni leik liðanna í forkeppni Evrópudeildarinnar en FH-ingar unnu fyrri leikinn 1:0.
SJK var stofnað fyrir aðeins átta árum síðan, árið 2007, við samruna tveggja félaga, TP-Seinäjoki og Sepsi-78 og hóf leik í 3. efstu deild Finnlands en spilar í ár í fyrsta sinn í Evrópukeppni.
Það er í samnefndum 60 þúsund manna bæ, Seinäjoki, sunnarlega í Finnlandi en þó 400 km. norðar en Helsinki.
„Liðið var stofnað árið 2007 og lék þá í þriðju deild og nú átta árum seinna erum við að spila í Evrópukeppni. Félagið hefur vaxið mikið og nú erum við að byggja nýjan völl og allt. Það er allt hægt ef eigendurnir eru góðir og staðráðnir í því að gera vel fyrir félagið,“ sagði Simo Valakari þjálfari liðsins en hann sagði einnig í samtali við mbl.is að eigendurnir hefðu dælt miklum peningum í félagið en þó á skynsamlegan hátt.
Valakari sem spilaði á sínum tíma með Derby County á Englandi stýrði liðinu á sinni fyrstu leiktíð í efstu deild Finnlands í 2. sætið í fyrra og segir félagið nú vera meðalstórt á finnskan mælikvarða en hann segir SJK sannkallað fjölskyldufélag.
„Nei, félagið er meðalstórt í Finnlandi. Við erum með held ég með 300 leikmenn í yngri flokkum. Við erum erum að búa til akademíu fyrir yngri leikmennina sem geta ekki spilað í aðalliðinu en geta spilað í 2. deildinni. Við viljum bæta allar hliðar félagsins. Við viljum styrkja innviði félagsins, gera barnastarfið betra og fleira,“ sagði Valakari.
„Við erum ekki stórt félag en þar liggja einnig okkar styrkleikar. Við erum fjölskyldufélag og öllum leikmönnum líður eins og þeir séu heima hjá sér. Við erum með fullt af sjálfboðaliðum og starfsmönnum sem vilja ólmir vinna fyrir félagið,“ sagði Valakari.
Hann segir uppgang liðsins koma á óvart í Finnlandi
„Já auðvitað. En hvar sem er í fótbolta, ef þú gerir hlutina réttt alla daga, ef þú æfir vel og spilar á hverjum degi muntu uppskera. Þar sem við við byrjuðum neðarlega var auðvelt að fara fljótt upp en núna erum við í toppbaráttunni í finnsku deildinni og þetta verður erfiðara og erfiðara. Við þurfum að vinna í okkar málum alla daga,“ sagði Valakari.
Leikurinn í Kaplakrika hefst kl. 19.15 á morgun.