Valsmenn eru á miklu flugi þessa dagana og Hlíðarendaliðið er svo sannarlega búið að stimpla sig inn í toppbaráttu Pepsi-deildarinnar. Þegar fyrri umferðin er að baki er Valur í fjórða sæti deildarinnar, er aðeins þremur stigum á eftir toppliði FH.
Valur gerði góða ferð í Garðabæinn um síðustu helgi og lagði Íslandsmeistara Stjörnunnar. Bjarni Ólafur Eiríksson, vinstri bakvörðurinn stóri og stæðilegi í Val, átti flottan leik, var maðurinn á bakvið bæði mörk sinna manna og hann er leikmaður 11. umferðarinnar að mati íþróttafréttamanna Morgunblaðsins.
„Það liggur bara nokkuð vel á okkur Valsmönnum. Við erum ánægðir með síðustu leiki hjá okkur og heilt yfir er búið að ganga bara nokkuð vel. Það er kominn stöðugleiki í liðið og það er eitthvað sem Val hefur skort undanfarin ár. Frammistaðan hefur ekki verið að rokka eins og mikið og undanfarin ár og formið er betra á liðinu heldur en oft áður,“ sagði Bjarni Ólafur Eiríksson við Morgunblaðið.
Valsmenn eru ósigraðir í sjö leikjum í röð í deildinni og hafa unnið fimm þeirra og þá er liðið komið í undanúrslit í bikarnum þar sem það mætir KA á Akureyri. Tímabilið byrjaði samt ekki glæsilega hjá þeim rauðklæddu. Valur fékk nýliða Leiknis í heimsókn í 1. umferð Pepsi-deildarinnar og steinlá, 3:0.
Sjá viðtalið við Bjarna í heild í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag og þar er birt úrvalslið 11. umferðar deildarinnar ásamt stöðunni í einkunnagjöf blaðsins.