„Mikið sjálfstraust í liðinu“

Oliver Sigurjónsson og félagar hans í Breiðabliki eru fullir sjálfstrausts …
Oliver Sigurjónsson og félagar hans í Breiðabliki eru fullir sjálfstrausts fyrir leikinn gegn Fylki í kvöld. mbl.is / Eva Björk Ægisdóttir

Oliver Sigurjónsson, miðjumaður Breiðabliks, er fullur tilhlökkunar fyrir leik liðsins gegn Fylki í 12. umferð Pepsi deildar karla sem fram fer á Kópavogsvellinum í kvöld. Oliver býst við hörðum leik á móti Fylki í kvöld og telur að leikmenn Blika séu klárir í þá baráttu sem framundan er. 

„Mér líst mjög vel á þennan leik. Menn er vel mótiveraðir og tilbúnir í slaginn. Þetta verður slagur frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu og við verðum klárir. Hemmi (Hermann Hreiðarsson) tók náttúrulega nýlega við Fylki þannig það er óljóst hvernig þeir spila, en við erum með okkar á hreinu og ætlum að einbeita okkur að okkur sjálfum.“

„Það er mikið sjálfstraust í liðinu þessa dagana. Þegar liðið spilar vel heilt yfir þá kemur alltaf auka sjálfstraust. Hópurinn er góður og allir miklir vinir. Við bökkum hvorn annan upp við hvert tækifæri.“

„Sigur gefur alltaf sjálfstraust og á meðan við höldum hreinu þá þarf bara eitt mark til þess að vinna leikinn. Það er mikið af sigurvegurum í hópnum og þess vegna fá leikmenn trú á því sem við erum að gera.“

„Menn eru vanir að vera í þessari stöðu og þess vegna er þetta ekki eitthvað glænýtt fyrir mönnum. Við vitum að við þurfum að leggja okkur fram til þess að ná lengra og ef við erum með smáatriðin eða þessa 1% hluti á hreinu, þá eru meiri líkur að við vinnum leiki. Að mínu mati kemur pressan frá okkur sjálfum og ef maður getur ekki höndlað sýna eigin pressu þá þurfa menn að stilla hausinn rétt á.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka