Albert Brynjar Ingason skráði nafn sitt í sögubækur Fylkis í gærkvöld þegar hann skoraði sigurmark Árbæjarliðsins gegn Breiðabliki á Kópavogsvelli, 1:0, í Pepsi-deild karla í knattspyrnu.
Albert sló þarna markamet félagsins í efstu deild en Sævar Þór Gíslason átti það. Sævar skoraði 41 mark fyrir Fylki í deildinni á árunum 2000 til 2006.
Albert, sem lék kornungur við hlið Sævars síðustu þrjú árin sem framherjinn eldfljóti frá Selfossi spilaði með Árbæjarliðinu, hefur nú skorað 42 mörk fyrir Fylki í deildinni. Að auki gerði Albert 13 mörk fyrir Val og FH og hefur því skorað 55 mörk í efstu deild. vs@mbl.is