„Dómarinn var drullu lélegur“

Rúnar Páll Sigmundsson.
Rúnar Páll Sigmundsson. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

„Við spiluðum heilt yfir mjög vel, sérstaklega í fyrri hálfleik, og ég er mjög stoltur af strákunum,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir 4:1 tap liðsins gegn skoska stórliðinu Celtic í síðari leik liðanna í 2. umferð forkeppni Meistaradeildarinnar.

Celtic vann einvígið 6:1, en Stjarnan hélt lífi í draumnum þegar Ólafur Karl Finsen kom þeim yfir strax á sjöundu mínútu.

„Celtic skapaði sér ekki nein færi í fyrri hálfleik, bara eftir föst leikatriði, og ég var mjög ánægður með það. Mér fannst vera brot í fyrsta markinu og ég var ekki ánægður með að dómarinn lét markið standa. Pablo var ýtt fyrir Gunnar sem komst ekki í boltann, sem er bara aukaspyrna,“ sagði Rúnar og var ekki sáttur með frammistöðu belgíska dómara leiksins.

„Dómarinn var drullu lélegur, hann var óöruggur og mér fannst Celtic fá aðeins meira út úr því en við. Það er stutt á milli í þessu og ég er stoltur af frammistöðu leikmanna minna í þessum tveimur leikjum,“ sagði Rúnar.

„Mér fannst við spila vel í stöðunni 2:1 þar sem við gátum jafnað, en náðum ekki að setja þetta annað mark sem hefði verið skemmtilegt fyrir okkur. 4:1 fannst mér of mikið en frammistaðan var mjög góð. Það skemmir svolítið þessi tvö mörk undir lokin en ég var ánægður með spilamennskuna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert