Þetta eru stórir kallar að koma hingað

Brynjar Gauti Guðjónson.
Brynjar Gauti Guðjónson. Eva Björk Ægisdóttir

„Mér fannst þetta ganga mjög vel, sérstaklega í fyrri hálfleik þar sem þeir fengu engin færi. En þeir nýttu sér föstu leikatriðin,“ sagði Brynjar Gauti Guðjónsson, leikmaður Stjörnunnar, eftir 4:1 ósigurinn gegn Celtic í síðari leik liðanna í 2. umferð forkeppni Meistaradeildarinnar í Garðabæ í kvöld.

„Þeir kunna að búa til Evrópustemningu í Garðabænum. Við skoruðum þetta fyrsta mark og gerðum þetta að leik í einhvern hálftíma en fáum svo óþarfa mark á okkur úr föstu leikatriði. Það var skemmtilegt að spila þennan leik en erfitt líka enda risastórt lið með marga góða leikmenn. Þeir voru erfiðir við að eiga en mér fannst við eiga hörkuleik og 4:1 er fullstórt,“ sagði Brynjar, sem tók undir orð Ólafs Karls Finsen um virðingaleysi þeirra skosku.

„Það var kannski smá hroki í þeim, þetta eru stórir kallar og að koma hingað á þennan völl á móti þessu liði þá fylgdi þeim smá hroki,“ sagði Brynjar og var einnig spurður út í frammistöðu belgíska dómarans.

„Mér fannst hann bera full mikla virðingu fyrir þeim, sérstaklega eftir að við komumst yfir. En svona er þetta, við erum litla liðið frá Íslandi. Hann réði ekki úrslitum í þessum leik samt,“ sagði Brynjar og telur Stjörnuna geta nýtt þetta einvígi fyrir komandi leiki í Pepsi-deildinni.

„Ef við komum með þetta hugarfar í leikina það sem eftir er af mótinu hef ég ekki miklar áhyggjur af þessu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert