FH gerði 2:2 jafntefli við Inter Bakú í framlengingu á Inter Stadium í Aserbaídsjan forkeppni Evrópudeildar UEFA í dag. Heimamenn fóru áfram samtals 4:3. Kristján Flóki var rekinn af velli á 58. mínútu fyrir litlar sakir og reyndist brottvísunin Hafnfirðingum dýrkeypt.
Liðin mættust í 2. viðureign forkeppni Evrópudeildar UEFA en Inter vann fyrri viðureignina 2:1 á Kaplakrika. Kristján Finnbogason var í marki FH í dag, 44 ára gamall, en Róbert Örn Óskarsson var í leikbanni.
Fyrri hálfleikurinn var heldur rólegur og var Inter betri aðilinn fyrstu 15 mínúturnar. Síðan, eins og þeir væru búnir að venjast veðrinu, tók FH í taumana og komst Atli Guðnason meðal annars í afar gott færi, einn gegn markverði Inter, en skaut yfir. FH fékk því þungt högg í blálok fyrri hálfleiks þegar Abbas Huseynov laumaðist inn í vítateig FH og skoraði af öryggi eftir góða stungusendingu frá Kvekveskiri. Staðan var 1:0 í hálfleik og útlitið svart fyrir FH, sem þurfti að minnsta kosti tvö mörk til að eiga möguleika á að komast áfram.
FH-ingar örvæntu ekki í hálfleik heldur komu tvíefldir til leiks og jöfnuðu metin strax á 47. mínútu með frábærri sókn. Þórarinn Ingi skallaði boltann í nánast opið markið eftir fyrirgjöf frá Jérémy Serwy á hægri kantinum. Kristján Flóki Finnbogason, sem kom inn á sem varamaður í stað Bjarna Þórs Viðarssonar á 38. mínútu, kom FH síðan í forystu á 53. mínútu. Serwy sótti aftur upp hægri kantinn, gaf boltann fyrir á Atla Guðnason sem skallaði boltann á Kristján sem skoraði í opið markið. FH hafði tekist að snúa við blaðinu á 5 mínútum og var komið í góða stöðu.
Á 56. mínútu fékk Kristján Flóki hins vegar að líta sitt annað gula spjald í leiknum fyrir afar litlar sakir. Leikmaður Inter var aðeins of seinn í lausan bolta og sparkaði hreinlega í fótinn á Kristjáni sem var sneggri. Dómaranum fannst Kristján hafa fylgt eftir af fullmikilli hörku og rak hann af velli. Afar harður dómur en Kristján var þó klaufi þegar hann fékk fyrra spjaldið á 40. mínútu fyrir að vera allt of seinn í tæklingu.
FH var komið í erfiða stöðu á ný. Liðinu tókst ekki að ógna af viti manni undir og var staðan 2:1 eftir venjulegan leiktíma og leikurinn fór því í framlengingu. Inter hafði meiri orku í framlengingunni og jafnaði metin strax á fyrstu mínútu með góðu skoti Rauf Aliyev rétt fyrir utan teig. Kristján Finnbogason átti ekki möguleika. FH-ingar voru orðnir þreyttir og þeim gekk ekkert að skapa tækifæri í framlengingunni. Leikurinn fór því 2:2 og FH er úr leik í forkeppninni þrátt fyrir harða baráttu. Inter Bakú fer áfram og mun mæta Athletic Bilbao í 3. umferð forkeppninnar.