„Við erum svekktir með þessi úrslit“

Atli Sigurjónsson í baráttu við Gunnar Þór Gunnarsson fyrrum samherja …
Atli Sigurjónsson í baráttu við Gunnar Þór Gunnarsson fyrrum samherja sinn. mbl.is / Þórður A.

Atli Sigurjónsson, leikmaður Breiðabliks og fyrrum leikmaður KR, var ánægður með leik Blika í leik liðsins gegn KR í 13. umferð Pepsi deildar karla í knattspyrnu á Alvogen-vellinunm í kvöld. Atla leið vel á sínum gamla heimavelli, en fannst Blikar hafa átt það skilið meira en eitt stig út úr leiknum.

„Við erum klárlega svekktir með að fá einungis eitt stig úr þessum leik. Við lögðum upp með að fá öll stigin þrjú og þetta eru því viss vonbrigði. Við þurfum á sigri að halda til þess að halda í við KR. Við erum aðeins á eftir, en erum þó ennþá með í pakkanum, þannig að það er ekkert stress.“

„Við hefðum klárlega getað klárað þennan leik, við fengum alveg færi til þess. Þeir voru meira með boltann og stjórnuðu ferðinni í spilinu. Mér fannst við samt fá fleiri, opnari og betri marktækifæri og hefðum átt skilið að vinna þennan leik.“

„Það var góð tilfinning að koma aftur á KR völlinn. Það var vel tekið á móti mér af leikmönnum, þjálfurum, forráðamönnum og starfsfólki á vellinum. Það var gaman að sjá gamla félaga á nýjan leik. Það skyggir hins vegar á leikinn að ég hafi sent dómara leiksins (Þorvald Árnason) á sjúkrahús með heilahristing. Ég hlýt að hafa hitt á vondan stað og ég biðst innilegrar afsökunar.“ sagði Atli Sigurjónsson í í samtali við mbl.is eftir leikinn í kvöld. 

Þorvaldur Árnason dómari leiksins þurfi að hætta leik í hálfleik vegna heilahristings. Þorvaldur var þó með fulla meðvitund, en var vankaður og kastaði upp í hálfleik. Þorvaldur var fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar vegna heilahristingsins, en er á batavegi.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert